Fara í efni
Fréttir

Æfingamót í handbolta hefst í KA-heimilinu

Akureyrskir handboltamenn hafa æft af krafti undanfarið og eru nú reiðubúnir að sýna bæjarbúum hvað í þeim býr. Æfingamót þar sem öll liðin taka þátt hefst í KA-heimilinu í dag.
 
Karlalið Þórs og kvennalið KA/Þórs unnu sér sæti í efstu deild Íslandsmótsins í vor þannig að öll lið Akureyrar verða í hópi þeirra bestu í vetur því karlalið KA hefur leikið í Olís deildinni undanfarin ár.
 
Fróðlegt verður að sjá hvernig liðin koma undan sumri. Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópum liðanna og nýir þjálfarar stýra karlaliðunum; Norðmaðurinn Daniel Birkelund þjálfar Þór og Andri Snær Stefánsson er við stjórnvölinn hjá KA.
 
Fjögur lið taka þátt í æfingamóti kvenna, KG sendibílamótinu: KA/Þór, ÍBV, Grótta og Stjarnan, en karlaliðin eru tvö, KA og Þór. Handboltaveisla næsta daga lítur þannig út:
 
Í dag, fimmtudag:
 
  • 17:30 – KA-Þór (karlar)
  • 19:30 – KA/Þór - Grótta
Á morgun, föstudag:
 
  • 17:00 – KA/Þór - ÍBV
  • 18:45 – Grótta - Stjarnan
Á laugardag:
 
  • 11:00 – Grótta - ÍBV
  • 13:00 – KA/Þór - Stjarnan
  • 14:30 – KA - Þór (karlar)
 

Íslandsmótið hefst í byrjun september, fyrstu leikir Akureyrarliðanna eru þessir:

Föstudag 5. september

  • Þór - ÍR 19.00

Laugardag 6. september

  • Selfoss - KA 16.00
  • KA/Þór - Stjarnan 15.30

Í upphaflegu fréttinni kom fram að KB sendibílamótið væri einungis fyrir kvennaliðin en leikir karlaliða KA og Þórs eru einnig hluti mótsins. Beðist er velvirðingar á ónákvæmninni.