Fara í efni
Fréttir

Íshokkí, körfubolti, handbolti og blak

Íþróttavikan er með rólegra móti miðað við það sem verið hefur að undanförnu. Knattspyrnutímabilinu er lokið, karlaliðin í handbolta í landsliðsfríi og fríhelgi fram undan hjá karlaliðinu í íshokkí eftir tvær mjög strembnar helgar að undanförnu. Á dagskrá er hins vegar íshokkíleikur kvenna, körfubolti hjá báðum Þórsliðunum, tveir handboltaleikir hjá KA/Þór, í Powerade-bikarnum og í Olísdeild kvenna og blakleikur hjá körlunum. Alltaf eitthvað.

ÞRIÐJUDAGUR 28. OKTÓBER - íshokkí

Uppfært kl. 12:50 á þriðjudegi: Íshokkísamband Íslands hefur ákveðið að fresta leik Fjölnis og SA vegna veðurútlits og færðar. Nýr leiktími ákveðinn fljótlega.

Kvennalið SA hefur farið vel af stað í Toppdeildinni í íshokkíinu og í kvöld er komið að útileik gegn Fjölni í Egilshöllinni. SA er með 11 stig í efsta sæti deildarinnar, hefur spilað fjóra leiki og unnið þá alla, þar af einn í framlengingu. SR er með sjö stig og Fjölnir án stiga. 

  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Egilshöllin kl. 20
    Fjölnir - SA

MIÐVIKUDAGUR 29. OKTÓBER - handbolti

Bikarkeppni kvenna í handknattleik, Powerade-bikarinn, hefst í vikunni með sex leikjum í fyrstu umferð keppninnar, 16 liða úrslitum. Raunar eru bara 12 lið sem spila í 16 liða úrslitunum því Íslandsmeistarar Vals og bikarmeistarar Hauka sitja hjá og koma inn í átta liða úrslitin.

Fyrstu leikir 16 liða úrslitanna verða spilaðir í dag, þriðjudag, en KA/Þór á heimaleik á morgun, miðvikudag, fær þá Selfyssinga í heimókn í KA-heimilið.

  • Powerade-bikarinn í handknattleik kvenna
    KA-heimilið kl. 18:30
    KA/Þór - Selfoss

FÖSTUDAGUR 31. OKTÓBER - körfubolti

Gengi karlaliðs Þórs í körfuknattleik hefur ekki verið gott það sem af er keppnistímabili, þrjú töp í deildinni og eitt í bikarkeppninni hingað til. Á föstudag er komið að heimaleik gegn KV, sem er eitt þriggja liða ásamt Þór og Skallagrími sem eru í botnsætunum án sigurs í fyrstu þremur umferðunum.

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - KV

LAUGARDAGUR 1. NÓVEMBER - handbolti, körfubolti

KA/Þór byrjaði Íslandsmótið af krafti, vann fyrstu þrjá leikina, tapaði síðan tveimur, en vann síðan Fram á útivelli í sjöttu umferðinni og situr í 2. sæti deildarinnar með átta stig, eins og ÍR og ÍBV, en tveimur stigum á eftir Val sem er í toppsætinu. Á laugardag er komið að heimsókn í Garðabæinn, en Stjarnan vermir botnsætið og er án stiga eftir fyrstu sex umferðirnar.

  • Olísdeild kvenna í handknattleik
    Hekluhöllin í Garðabæ kl. 15:30
    Stjarnan - KA/Þór

- - -

Kvennalið Þórs í körfuknattleik hefur unnið fyrstu tvo leiki sína í 1. deildinni, fyrst stórsigur gegn B-liði Njarðvíkur og svo útisigur gegn Aþenu um liðna helgi. Á laugardag taka Þórsstelpurnar á móti liði Fjölnis, sem er með tvo sigra í þremur leikjum, hafa unnið ÍR og B-lið Njarðvíkur, en töpuðu fyrir Aþenu. 

  • 1. deild kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18
    Þór - Fjölnir

SUNNUDAGUR 2. NÓVEMBER - blak

KA er í 2. sæti deildarinnar með 15 stig eftir sex leiki, en Hamar hefur leikið einum leik meira og er á toppnum með 17 stig. Mótherjar KA eru hins vegar á botninum án stiga eftir sex leiki.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA-heimilið kl. 14
    KA - HK

- - -

Lesendur eru hvattir til að minna á íþróttaviðburði hvers kyns sem fram undan eru í meistaraflokkum, sérstaklega ef eitthvað verður út undan og gleymist í þessari vikulegu yfirferð í vikubyrjun hér á akureyri.net - sendið tölvupóst í haraldur@akureyri.net ef koma þarf slíkum upplýsingum á framfæri.