Fara í efni
Fréttir

Hvað segja oddvitarnir um íbúakosninguna?

Lang flestir kusu þennan möguleika; að hús á Gránufélagsreitnum yrðu þrjár til fjórar hæðir.

Akureyringar vilja lágreista byggð á Oddeyri miðað við niðurstöðu ráðgefandi íbúakosningar um aðalskipulag svæðisins sem lauk í byrjun vikunnar. Um 26% þeirra sem uppfylltu skilyrði um þátttöku kusu – alls 3.878 manns – og 67% þeirra greiddi gildandi aðalskipulagi atkvæði. Í því felst að hús geti verið 3 til hæðir.

Málið hefur verið afar umdeilt í bænum. Akureyri.net leitaði viðbragða oddvita flokkanna í bæjarstjórn Akureyrar við niðurstöðunni.  Þau svör sem borist hafa fara hér á eftir.

Verður varla uppbygging – því miður

„Varðandi þátttöku í kosningunni þá var hún sæmileg og ívið betri en ég bjóst við en hins vegar hafa fá mál fengið jafn mikla athygli á síðustu árum og því á kosningaþátttaka kannski ekki að koma á óvart.,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins.

„Ég tel, eftir á að hyggja, að það hefði mátt kynna þetta betur fyrir bæjarbúum og gera fólki grein fyrir því að með því að kjósa með gildandi aðalskipulagi væri fólk einfaldlega að velja óbreytt ástand. Ég er hræddur um að margir hafi hins vegar séð fyrir sér upphaflegu tillögurnar og verið að greiða atkvæði gegn þeim. Við sem erum að hrærast í bæjarpólitíkinni gerum okkur hins vegar flest öll grein fyrir því að til þess að þarna verði uppbygging þurfi að leyfa meira byggingarmagn en gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi og tillögur þær sem lagðar voru í kosningu voru töluvert frábrugðnar þeim hugmyndum sem ég held að margir hafi séð fyrir sér,“ segir Guðmundur Baldvin.

„Ég held því miður að þessi niðurstaða verði til þess að félagar mínir í bæjarstjórn og komandi bæjarstjórnir þori ekki að fara á móti þeim afdráttarlausa vilja sem fram kom í könnuninni og ég er hræddur um við munum ekki sjá uppbyggingu á þessu svæði á næstu árum eða áratugum, svæði sem svo sannarlega veitti ekki af upplyftingu og hefði ýtt undir jákvæða þróun Oddeyrarinnar í heild sinni.“

Kýs í samræmi við niðurstöðuna

„Ég tel það mjög ánægjulegt og til marks um áhuga íbúa á því að hafa áhrif að 26% þeirra gefi sér tíma til þess að segja hug sinn í þessu tiltekna máli og tel mikilvægt að niðurstaðan hafi verið jafn afgerandi og raun ber vitni,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar.

„Þegar horft er til þess hvort að þátttakan hafi verið góð eða ekki, þá er þess virði að muna að 66% bæjarbúa greiddu atkvæði í síðustu sveitarstjórnarkosningum, ekki síst í því ljósi tel ég að þáttakan hafi verið ágæt. Það er ýmislegt sem við getum lært af þessu ferli og tel ég að bæjarstjórn eigi að nýta það veganesti og kanna oftar hug bæjarbúa til umdeildra mála. Þess utan tel ég mikilvægt að nýta einnig aðrar fjölbreyttar leiðir til þess að virkja íbúalýðræðið. Bæjarstjórn er nú í sjálfsvald sett hvort og hvernig hún horfir til þessarar niðurstöðu, en ég mun kjósa í samræmi við hana og greiða atkvæði með óbreyttu skipulagi,“ segir Hilda Jana.

Óttast að uppbygging tefjist

„Kosningin sýnir afgerandi niðurstöðu og hún gefur okkur góðan umræðugrundvöll um málið sem fer nú í sitt ferli í stjórnkerfinu,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans. „Það var viðbúið að þáttakan yrði takmörkuð þar sem um afmarkað skipulagsmál er að ræða, en sýnir þó að íbúar hafa áhuga á að taka þátt í stjórnsýslu bæjarins sem er jákvætt. Ég hef áhyggjur af því að ef óbreytt skipulag verður endanleg niðurstaða að þá tefjist uppbygging á Oddeyrinni enn frekar, sem mér þykir miður.“

Íbúar vilja lágreista byggð

„Ég er fyrst og fremst ánægð með góða þátttöku í kosningunni. Mér finnst hún sýna að íbúar eru tilbúnir til að taka þátt í að móta samfélagið sitt,“ segir Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti VG.

„Helsta verkefni okkar sem vinnum innan stjórnkerfisins er að efla trú íbúa og traust á því að við séum raunverulega að hlusta og tökum mark á því sem kemur út úr samráði, hvort sem um er að ræða kosningar sem þessa á lokastigum mála eða, sem enn betra er, samráð við íbúa á fyrri stigum við undirbúning ákvarðana. Hvað varðar niðurstöðuna úr þessu samráði þá samræmist hún vel minni skoðun og tilfinningu fyrir vilja íbúa varðandi þetta svæði, þ.e. að viljinn sé að á Oddeyrinni sé áfram lágreist byggð,“ segir Sóley Björk.

Smelltu hér til að sjá niðurstöður kosningarinnar.