Fara í efni
Fréttir

HSN lengi starfað í óhentugu húsnæði

„Eðlilegt er líka að ríkisvaldið muni það að það hefur aldrei byggt heilsugæslustöð á Akureyri og kannski tími til kominn að hysja upp um sig buxurnar varðandi það,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, um byggingu nýrra heilsugæslustöðva.

Akureyri.net hefur undanfarna daga birt umfjöllun og viðtal við Jón Helga Björnsson, forstjóra HSN. Hér er rætt um staðsetningu næstu heilsugæslustöðvar, þeirrar sem vonast er til að verði tilbúin eftir um þrjú ár og hefur verið valinn staður á tjaldsvæðisreitnum svokallaða.

Heilsugæslustöðin á Akureyri hefur starfað lengi í óhentugu húsnæði sem hannað var og byggt sem verslunarhúsnæði og að baki er margra ára barátta stjórnenda fyrir byggingu nýrra heilsugæslustöðva. Nú er rétt rúmur mánuður í að starfsemin flytji að verulegu leyti í nýja stöð í Sunnuhlíð, að hluta til reyndar í verslunarhúsnæði sem hefur verið breytt og að hluta í viðbyggingu við verslunarmiðstöðina. Áformað er að flutningsdagur verði 28. janúar.

Framkvæmd og skipulag við flutning starfseminnar hefur svo reyndar breyst vegna þess að mygla greindist í hluta húsnæðisins í Hafnarstrætinu. Hluti starfseminnar var fluttur að Hvannavöllum 14 auk þess sem heimahjúkrunin er í leiguhúsnæði við Skarðshlíð. Þannig verður það áfram þar til heilsugæslustöðvarnar á Akureyri verða orðnar tvær, vonandi eftir um það bil þrjú ár.

Skiptar skoðanir um staðsetningu

Eftir að staðsetning hafði verið ákveðin hafa framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð í Sunnuhlíð gengið vel og áætlanir um flutning þangað virðast ætla að standast. Varðandi hina stöðina hefur ýmislegt komið upp sem ekki hefur einfaldað eða auðveldað undirbúning að byggingu hennar. Um tíma var deilt um fjölda bílastæða í kjallara og hvort ríki eða sveitarfélag ætti að bera kostnaðinn. Þá hafa einnig heyrst gagnrýnisraddir um staðsetningu hennar og bent á að Akureyrarbær hafi boðið lóð rétt við Sjúkrahúsið á Akureyri sem hafi verið afþökkuð.

Jón Helgi segir það í sjálfu sér ekki Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að ákveða staðsetninguna þó þau hafi skoðun á henni. „Það er bara stefnt að því að byggja aðra stöð þarna á þessum bletti,“ segir hann og vísar þar til staðsetningarinnar á horni Byggðavegar og Þingvallastrætis, í norðvesturhorni tjaldsvæðisreitsins svokallaða.


Hér, á horni Þingvallastrætis og Byggðavegar, í norðvesturhorni Tjaldsvæðisreitsins svokallaða, er áformað að rísi ný heilsugæslustöð á næstu árum. Til vinstri er Berjaya-hótelið. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

„Það er ekki sáluhjálparatriði hjá okkur, staðsetningin, svo framarlega sem hún er sunnanvert í bænum, við getum orðað það þannig. Okkur hefur fundist þessi staðsetning sem þarna var fundin bara mjög flott, að hún henti vel upp á starfsemina og aðgengi að henni fyrir íbúana. En það virðist vera krefjandi að byggja þarna. Við í sjálfu sér vildum ekki skipta okkur mjög mikið af þessari staðsetningu. Það skiptir bara máli að menn séu ekki mikið að hringla með það, bara að þetta komist á koppinn.“

Spurður um hugsanlega staðsetningu á lóð við hlið sjúkrahússins segir Jón Helgi að þau hjá HSN hafi ekki verið mjög áhugasöm um það. „Við vildum hafa skýrari aðgreiningu á milli sjúkrahússtarfseminnar og heilsugæslustarfseminnar. Ég held að það hafi almennt verið skoðun okkar starfsfólks,“ segir hann og svarar því til að nálægðin við sjúkrahúsið hafi ekki endilega kosti sem myndu vega upp á móti.

Þenslan gerir verkefnið erfiðara

Áformað er að heilsugæslustöð númer tvö verði tilbúin nálægt áramótum 2026-27.

„Jú, það er stefnt á það, en það hefur ekki gengið nógu vel að ná samningum um þá byggingu. Menn hafa verið í smá ströggli með það,“ segir Jón Helgi. Framkvæmdin var boðin út í alútboði og fyrirtæki sýnt áhuga á framkvæmdinni, en ekki hefur náðst niðurstaða. „Þetta var svo sem sama ástand á Húsavík þegar það var boðin út bygging á hjúkrunarheimili og það kom enginn bjóðandi. Þetta er kannski hluti af þenslunni, það er mikið að gera og menn ekki tilbúnir í svona stór verkefni. Kannski kosta líka svona byggingar meiri peninga en menn eru til í að viðurkenna. Eðlilegt er líka að ríkisvaldið muni það að það hefur aldrei byggt heilsugæslustöð á Akureyri og kannski tími til kominn að hysja upp um sig buxurnar varðandi það.“