Fara í efni
Fréttir

Hliðin verða sett upp í Naustaborgum

Hlið eða „hraðahindrun“ sem sett verður upp við stíginn í Kjarnaskógi verður svipuð og þetta mannvir…
Hlið eða „hraðahindrun“ sem sett verður upp við stíginn í Kjarnaskógi verður svipuð og þetta mannvirki á reiðleiðinni þar sem hún þverar Eyjafjarðarbraut við Kjarnagötu.

Sett verða upp tvö hlið til að draga úr hraða á fjölfarinni útivistarleið í Naustaborgum, skv. ákvörðun Akureyrarbæjar í vikunni. Hliðin verða sett upp þar sem reiðleið þverar útivistarstíg við norðausturhorn svæðisins, auk þess sem legu stíga verður breytt lítillega. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í næstu viku.

Fjallað var um málið á Akureyri.net á dögunum, þar sem fram kom megn óánægja Skógræktarfélags Eyfirðinga með framkvæmdina, en niðurstaða bæjarins er að hliðin verði eins og ráðgert hafði verið. Málið var kynnt á fundi með fulltrúum flestra hagsmunahópa í vikunni.

Stígurinn er mikið notaður allan ársins hring; hlauparar, hjólreiðafólk og gangandi eru þar mikið á ferð auk þess sem svæðið er mjög vinsælt hjá gönguskíðafólki.

„Sett verða upp vönduð timburhlið sem eru hönnuð til að vera alltaf opin notendum svæðisins með 130cm gati. Áður en komið er að hliðinu er farið um stýringu sem er um 3m breið. Þess fyrir utan verður opnanlegt 3,5 - 4m hlið sem er hugsað fyrir vinnutæki, t.d. snjótroðara, og aðkomu bráðaliða,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

„Hliðin verða svipuð öðrum sem eru í notkun í dag á reiðleiðum. Markmiðið er að draga úr hraða og stuðla að bættu öryggi allra en um leið tryggja aðgengi ólíkra notendahópa svæðisins.“

Smellið hér til að lesa frétt Akureyri.net um ónægju Skógræktarfélagsins.

Grænu punktarnir sýna hvar hliðin verða staðsett.