Fara í efni
Fréttir

Mjög ósáttir við hlið fyrir „örfáa“ sem stunda hrossarekstur

Stjórn og framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga leggst eindregið gegn því að fjölfarinn útivistarstígur í Naustaborgum verði þveraður með hliðum á tveimur stöðum við reiðstíg. Framkvæmdastjóri félagsins segir Akureyrarbæ ætla, að kröfu formanns hestamannafélagsins Léttis, að setja upp hlið sem þjóni þröngum hópi þeirra sem stundi hrossarekstur í bæjarlandinu.

„Framkvæmdin gerir okkar störf erfiðari, þjónar afar þröngum hópi notenda og skapar úlfúð og árekstra milli ólíkra útivistarhópa,“ segir Ingólfur Jóhannesson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins. Hann veitti Akureyri.net góðfúslegt til að vitna í skrif sín en tjáði sig ekki frekar að sinni. 

Auðveldara að komast í gegnum vopnaleit

Tilgangurinn með hliðunum „er að auðvelda örfáum aðilum rekstur á hrossastóðum. Á föstudag var mælt fyrir útlínum hliðanna með rauðu sprayi, svo verktaki geti hafist handa. Forsvarsmenn hestamanna mættu síðan á svæðið og betrumbættu hönnunina með bláu sprayi,“ skrifar Ingólfur á síðu Skógræktarfélagsins á Facebook – og vísar til myndarinnar efst í fréttinni. Ingólfur bætir við síðan við: „Nú lítur út fyrir að auðveldara verði fyrir göngu, skíða og hjólafólk að komast í gegn um vopnaleitarhlið á Keflavíkurflugvelli heldur en að þvera reiðstíg í Naustaborgum, hönnunin er hliðstæð.“

Þjónar fáum – áform í uppnámi

„Mannvirkið þjónar hagsmunum fárra einstaklinga úr hópi þeirra sem stunda hrossarekstra í bæjarlandinu og neita að vera hluti af samfélagi þrátt fyrir að sama samfélag sé það eina á landinu sem yfir höfuð leyfir hrossarekstra í þéttbýli. Hliðin þjóna ekki hinu almenna hestafólki og takmarka lífsgæði annara útivistarhópa auk þess að skapa úlfúð og árekstra milli ólíkra hópa, úlfúð sem við hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga höfum lagt okkur fram um að útrýma. Áform um tengingu útivistarsvæðis í Kjarna, gegn um golfvöll, framhjá bílastæði við Ljómatún að Miðhúsabraut með það að markmiði að dreifa ört vaxandi umferð og minnka kolefnisspor eru sömuleiðis í uppnámi,“ segir Ingólfur.

Mynd númer 2

Hann nefnir að Skógræktin hafi bent á, vilji menn fara „hliðaleiðina“, að í stað „fyrirhugaðra flugvallarhliða megi þvera reiðstíg við stígamótin líkt og gert er með góðum árangri á sama stíg við afleggjarann að Tjaldstæðinu á Hömrum áður en haldið er yfir Kjarnabraut [mynd númer 2]. Sú útfærsla hamlar ekki almennri umferð hestafólks og gefur hrossarekstrarfólki færi á að hægja á/stöðva stóð áður en rekið er yfir gatnamót, einfalt og gott.“ Þá hugmynd segir Ingólfur hafa fengið dræmar undirtektir Léttis og raunar ekki verið umsemjanlegt.

Við og þið kynslóðin að renna sitt skeið

Ingólfur segist fyrir alla muni vilja að fólk sýni hvert öðru tillitssemi og virðingu, og geti talað saman. „Minnst hefur verið á hestafólk í þessum pistli vegna hliðframkvæmda og svo það sé nú sagt og því haldið til haga er alls ekki meiningin að gera það góða fólk að blóraböggli alls sem miður fer, síður en svo, öll erum við í sama liði. Allir útivistarhópar glíma við svipuð vandamál, innihalda notendur með misjafnar áherslur, siðferði eða þarfir og verða að standa vörð um sín mál. Sem dæmi um mikilvægt hagsmunamál sem forystumenn [hestamannafélagsins Léttis] hafa haldið á lofti undanfarin ár er ósk um að hafa aðgang að reiðleiðum sem eru aðskildar annari umferð. Borðleggjandi gagnvart öryggismálum stígfarenda en skipulagsmál gera umsjónaraðilum oft erfitt um vik að setja einfaldlega upp boð og bannskilti. Þarna getur Kjarnasamfélagið td staðið saman og sammælst um umgengnisreglur sem byggja á gagnkvæmri virðingu.“

Síðan segir Ingólfur: „Við og þið kynslóðin er að renna sitt skeið. Óbilgirni og sérhagsmunapot forystufólks líkt og formaður Léttis beitir þessa dagana er eitthvað sem einfaldlega rúmast ekki í útivistarsamfélagi nútímans.“

Fjölbreytt útivist áfram

Ingólfur segir fólk stunda mjög fjölbreytta útivist á svæðinu, nefnir að fólk gangi, hjóli, stundi hestamennsku og gangi á skíðum. „Allt þetta ætlum við að stunda á sama svæðinu og þannig verður það um ókomin ár hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sem framkvæmda- og umsjónaraðili útivistarsvæðisins í Kjarna hefur Skógræktarfélag Eyfirðinga reynt að taka tillit til og virða skoðanir allra sem svæðið nota hvort sem það er hjóla-, skíða- eða hestafólk, göngufólk, barnafólk, gamalt fólk, hundafólk, ferðafólk osfrv. og höfum ræktað samskipti við alla þessa hópa. Jákvæð umræða hefur verið um svæðið og samskipti ólíkra hagsmunaaðila almennt á jákvæðari nótum en gengur og gerist í samfélaginu. Stjórn félagsins leggst eindregið gegn því að útivistarstígur í Naustaborgum sé þveraður á tveimur stöðum með hliðum. Framkvæmdin gerir okkar störf erfiðari, þjónar afar þröngum hópi notenda og skapar úlfúð og árekstra milli ólíkra útivistarhópa sem er nokkuð sem við þurfum síst á að halda.“