Erfðaefni hnúðlaxa fannst í Eyjafjarðará
Hnúðlaxar hafa gert sig heimakomna í Eyjafjarðará, skv. fyrstu niðurstöðum rannsókna vísindamanna á erfðaefni fiska í ánni. Líklegt er talið að fiskurinn hafi náð að hrygna og í framhaldinu verður fylgst með klaki seiða og ferð þeirra niður ána.
Eins og akureyri.net greindi frá í september sl. er Eyjafjarðará hluti af stóru evrópsku verkefni á sviði umhverfisrannsókna, þar sem nýjustu tækni á sviði erfðavísinda er beitt. Tilgangurinn er að kanna hvaða áhrif hnúðlaxar hafa á vistkerfi árinnar en hnúðlax hefur verið skilgreindur sem ágeng tegund og er afar óvelkominn í íslenskum veiðiám.
- Umfjöllun akureyri.net frá því í haust um rannsóknarverkefnið: Eyjafjarðará hluti af stóru umhverfisrannsóknarverkefni
Dr. Þorleifur Ágústsson og aðrir vísindamenn verkefnisins hafa síðan í júlí fylgst náið með ferðum fiska í Eyjafjarðará, með hjálp hátæknibúnaðar sem gerir þeim kleift að safna erfðaefni úr ánni. Þetta er aðferð sem nú hefur sýnt sig að er bæði nákvæm og áreiðanleg. Sýni hafa verið tekin með sjálfvirkum búnaði á einum stað við ána en að auki hafa vísindamennirnir safnað erfðaefni á sjö öðrum stöðum eftir endilangri Eyjafjarðará.
Niðurstöður sýna að hnúðlax lagði leið sína upp eftir Eyjafjarðará og fannst úr honum erfðaefni í byrjun júní við Akureyrarflugvöll. Um miðjan júní var fiskurinn farinn að greinast ofar í ánni og segja má að ganga hnúðlax hafi náð hámarki uppúr miðjum ágúst, áður en mælingar sýna að hann hopaði upp úr miðjum september.
Að sögn Þorleifs þá eru allar líkur á að hnúðlaxinn hrygni í ánni og því gefa þessar rannsóknir góðar upplýsingar um hvar hann hrygnir og í framhaldinu verður fylgst með klaki seiða og ferð þeirra niður ána. Niðurstöður fyrsta árs fela meðal annars í sér að geta kortlagt hrygningastaðina. Næsta vor verður því lögð áhersla á að fanga erfðaefni úr seiðum sem klekjast út og með því móti fæst mikilvæg vitneskja um hvort hrygning hafi átt sér stað.
Hnúðlaxinn er ólíkur laxinum okkar að hann dvelur ekki í ánni að eftir að hann klekst út heldur heldur strax til hafs í leit að æti og snýr svo aftur að að tveimur árum liðnum. Hnúðlaxinn er því á ferðinni í ám á oddaárum. Íslenski laxinn dvelur hinsvegar í ánni í nokkur ár, yfirleitt 3 til 5 ár, þar til að réttum þroska er náð og gengur hann þá til sjávar í leit að æti.

Þorleifur Ágústsson tekur sýni úr Eyjafjarðará til erfðagreiningar síðastliðið sumar.
Tæknibúnaðurinn búinn að sanna gildi sitt
Þrátt fyrir að göngur hnúðlax hafi verið almennt litlar eða smáar í ár samanborið við fyrri ár, þá er tæknin búin að sanna gildi sitt hvað næmni varðar og niðurstöðurnar eru því gríðarlega mikilvægar. Aðrar tegundir sem mældust erfðaefni úr voru bleikja og sjóbirtingur, sem líkt og búast mátti við voru í ánni.
Dr. Þorleifur Ágústsson segir að svona rannsóknir eða tækni opni á samstarf við veiðifélög í landinu um vöktun og ekki síst að geta með erfðafræðilegri tækni hjálpað veiðifélögum að meta ástand áa.
Fyrirhugað sé að kynna verkefnið á vormánuðum fyrir veiðifélögum á landinu og sjá hvort áhugi sé fyrir slíkri þjónustu. Ekki sé vanþörf á í ljósi þess að umhverfið er að breytast, nýjar tegundir geri orðið vart við sig ásamt því að tæknina er hægt að nota til að mæla erfðaefni eldislax og með því móti geta brugðist hratt við ef það mælist, sem gerist áður en nokkur veiðimaður verður fiskanna var.
Ennfremur er komið á samstarf við grunnskólann á Hrafnagili um að nemendur í náttúrufræði fái að kynnast starfi vísindamanna og taka þátt í að taka sýni. Það er hluti af stóru verkefni sem heitir Blue Schools og tengist skólinn því öðrum menntastofnunum sem einnig eru hluti af verkefninu.
„Við erum gríðarlega ánægðir með fyrsta árið. Erlendir samstarfsmenn mínir eru himinlifandi með móttökur sem þeir hafa fengið og áhuga heimamanna. Niðurstöðurnar eru mjög góðar og verða þegar kynntar á ráðstefnu í vor. En í svo stóru rannsóknaverkefni sem hefur svo háan flækjustuðul má oftast búast við tæknilegum vandamálum sem erfitt er að leysa. Háskólinn á Akureyri á þakkir skilið fyrir að veita okkur aðstöðu til að taka inn rannsóknatæki til stillinga. Það eitt sýnir hve Akureyringar búa vel að hafa slíka stofnun,“ segir dr. Þorleifur Ágústsson.
Einar Eg. Nielsen, prófessor hjá danska Tækniháskólanum (DTU), segir ennfremur að mikill áhugi sé að efna til samstarfs við Háskólann á Akureyri og vonast til að hægt verði að opna á slíkar viðræður á næsta ári.