Fara í efni
Fréttir

Hilda um grunnskóla, hinsegin og kynsegin

Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, svaraði í morgun þremur spurningum frá lesendum en Akureyri.net bauð fólki að senda spurningar til framboðanna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna um næstu helgi. Svar Hildu Jönu við fyrstu spurningunni, um háspennulínu í landi Akureyrar, birtist fyrr í dag. Hér eru svör við hinum spurningunum tveimur.

SPURT ER – Hvað hyggjast framboðin gera til að styrkja stöðu hinsegin og kynsegin fólks á Akureyri? Vita hvernig þau ætla að tryggja fjölbreytileika á Akureyri og tryggja mannréttindi þessa hóps og möguleika til að njóta lífsins á Akureyri, í skólum, íþróttum, félagsstarfi og annars staðar í samfélaginu?

Ég sá í kynningarefni framboðanna í gær að aðeins Píratar snerta á málefnum þessa hóps sem er hratt stækkandi og skrýtið að akureysku framboðin skauti alveg framhjá þessu málefni.

HILDA SVARAR – Okkar stefnumál má sjá hér og bendi ég sérstaklega á kaflann um mannréttindamál, en við viljum leggja áherslu á fjölbreytileika og gleði í samfélagi sem við öll tilheyrum: https://xs.is/afram-akureyri-fyrir-okkur-oll Þar segir m.a.:

  • Vinnum að samþættingu mannréttindasjónarmiða og tryggjum jöfnuð án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúar, lífsskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu
  • Gerum samning við Samtökin 78 um fræðslu og ráðgjöf til starfsmanna Akureyrarbæjar, nemenda í grunnskólum og bæjarbúa
  • Vinnum gegn staðalímyndum innan þjónustustofnana og gagnvart notendum þjónustunnar
  • Ráðumst í markvissar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu og starfsmannamálum

Þess utan er í gildi mannréttindastefna Akureyrarbæjar sem kallast „Alls konar Akureyri“ og setja þarf þunga í að framfylgja þeirri stefnu, en hana má sjá hér: https://www.akureyri.is/static/research/files/mannrettindastefna_akureyrarbaejar_2020-2023pdf

SPURT ER – Stjórn Samtaka – svæðisráðs foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrar, óskar eftir að framboðin til sveitarstjórnarkosninga, leggi fram stefnu sína í málefnum grunnskólanna og það verði birt hjá ykkur.

HILDA SVARAR – Góð menntun er samfélagslegt verkefni sem þarf að taka alvarlega og sinna af kostgæfni, enda eru skólarnir okkar stærsta jöfnunartæki. Nemendur hafa rétt á námi við hæfi og saman mynda þeir samfélag þar sem hlúð er að víðsýni og dómgreind, ekki síst til að takast megi á við viðfangsefni samtímans með hagsmuni samfélagsins alls að leiðarljósi. Skólar eiga að veita nemendum jöfn tækifæri og draga fram styrkleika hvers og eins. Því miður er ljóst að ekki standa öll börn jafnfætis, en nýlegar rannsóknir sýna að tækifæri og árangur nemenda í skólakerfinu stýrist í of miklum mæli af félagslegum bakgrunni nemenda. Þar standa sérstaklega höllum fæti nemendur með erlendan bakgrunn og leggja þarf allt kapp á að breyta því.

Hér á Akureyri búum við að afar öflugu skólasamfélagi. Skólarnir okkar eru einstaklega vel mannaðir, en hlutfall réttindakennara er með því besta sem gerist, bæði í leik- og grunnskólum. Fagfólkið okkar veit svo sannarlega hvað það er að gera og hvers konar umgjörð þarf til að geta enn betur sinnt fjölbreyttum þörfum nemenda. Við í Samfylkingunni viljum hlusta á fagfólkið, treysta því og styðja til góðra verka og tryggja nemendum og starfsfólki góðan aðbúnað. Tryggja þarf bætt aðgengi að kennsluráðgjöf, þjónustu og stuðningi til starfsþróunar á vettvangi. Það þarf að styðja betur við kennara í kennslu barna með erlendan bakgrunn, stytta biðlista og efla stuðning við börn sem þurfa sérúrræði, tryggja öfluga náms- og starfsráðgjöf og auka við stuðning á vettvangi, í samráði við fagfólkið sem þar starfar. Jafnframt þarf að vera vakandi fyrir langtímaafleiðingum faraldursins á nemendur og starfsfólk skóla, sem svo sannarlega hefur staðið vaktina síðastliðin tvö ár.

Menntun er samfélagslegt verkefni og ekki einkamál hvers og eins og það er hagur okkar allra að vel takist til; að kennurunum okkar séu búnar ásættanlegar vinnuaðstæður og skólaþjónusta sé efld, ekki síst svo að tækifæri nemenda til að ná árangri og vera virkir þátttakendur í samfélaginu innan og utan skólans stýrist ekki af félagslegum aðstæðum þeirra og bakgrunni.

Að lokum eru hér nokkrir punktar úr okkar stefnuskrá, en hana má sjá í heild sinni hér: https://xs.is/afram-akureyri-fyrir-okkur-oll

  • Stöndum vörð um og eflum faglegt starf og starfsaðstæður í leik- og grunnskólum í samráði við starfsfólk
  • Leggjum áherslu á að standa vel að móttöku barna með íslensku sem annað tungumál
  • Vinnum af fullum þunga til að fyrirbyggja einelti innan grunnskólanna
  • Áhersla verður lögð á hvers konar forvarnir fyrir börn og unglinga
  • Tryggjum fullt starf námsráðgjafa fyrir hverja 300 nemendur
  • Höldum áfram með verkefnið „Barnvænt sveitarfélag“