Fréttir
Heimsókn Ingólfs frænda 1961
28.12.2025 kl. 06:00
EYRARPÚKINN - 71
Ingólfur kom norður til lækninga við heyrnardeyfð þeirri sem plagaði hann í æ ríkari mæli og hafði tekið tímann sinn að fá hann til þeirrar ferðar og fannst sonum hans mælirinn fullur þegar Ingólfur heyrði ekki lengur í dráttarvélinni.
Bóndinn að austan vissi ekkert hvað hann átti af sér að gera á Akureyri enda augljóst að þar fór maður sem var óvanur setum með hendur í skauti á eldhússtól yfir hásumartímann.
Ingólfur þurfti til læknis nokkrum sinnum til heyrnarmælinga og var biðin milli mælinga verst þvi hann heyrði svo lítið.
Föðurbróðir minn þuklaði á heyrnartækjunum eins og lítið barn með of stóra fingur og gékk illa að stilla þau.
Stundum glumdi í tækjunum og þá heyrði Ingólfur ekki neitt og stundum glumdi ekki í tækjunum og þá heyrði hann heldur ekki neitt.
Mér fannst sem frændi hefði gaman af að labba niður á tún að skoða hjallana. Að vísu voru nokkur ár síðan fé var þar á beit og hænsn hlupu eftir skarni en hestar gripu niður innan girðingar og gaf ég þeim hestabrauð úr Stínubakaríi og sagði Ingólfi nöfn þeirra.
Við leiddumst út í hvamminn góða og stóðum þar í sólinni þegar ég sagði Ingólfi frá Kwaifljótinu og ævintýrum Eyrarpúka í hjöllunum og var á táknmáli að hluta.
Þá sagði Ingólfur Hefðir þú ekki gaman af að koma í sveitina til okkar á Skjaldþingsstöðum Jói minn?
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Á sunnudögum síðustu misseri hefur akureyri.net birt kafla úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki Jóhanns Árelíuzar sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003. Heimsókn Ingólfs frænda 1961 er kafli úr bókinni Sveskjur í sólarlaginu, síðari bók Jóhanns um Eyrarpúkann en þar segir einkum frá dvöl drengsins á æskuslóðum föður hans í Vopnafirði. Bókin kom út 2010.