Fara í efni
Fréttir

Heilsugæslan opnuð á nýjum stað á morgun

Starfsfólk HSN og iðnaðarmenn voru í óðaönn að hnýta lausa enda í nýju heilsugæslustöðinni í Sunnuhlíð á föstudaginn. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Öll þjónusta og starfsemi heilsugæslustöðvarinnar sem verið hefur í Hafnarstræti verður komin í nýtt og að hluta endurnýjað eldra húsnæði í Sunnuhlíð 12 á morgun, mánudaginn 19. febrúar. Hluti starfseminnar verður þó áfram í Linduhúsinu að Hvannavöllum 14 og í Skarðshlíð 20.

Á nýja staðnum verður öll almenn læknaþjónusta, hjúkrunarmóttaka, mæðravernd, ungbarnavernd og önnur þjónusta fyrir íbúa á Akureyri og nærsveitarfélög, eins og það er orðað í frétt Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Þar kemur einnig fram að nýja heilsugæslan sé sérhönnuð utan um starfsemina, en miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu. Þá er aðgengi allt með betra móti en áður var og mun öll starfsemin fara fram á einni hæð. 

Sá hluti starfsemi heilsugæslustöðvarinnar sem hefur verið að Hvannavöllum 14 frá því að mygla greindist í húsnæðinu í Hafnarstræti, það er sálfélagsleg þjónusta og geðheilsuteymi, verður þar áfram og heimahjúkrunin verður áfram með starfsstöð í Skarðshlíð 20. 

Hafrún Brynja Einarsdóttir mótttökuritari var alsæl á nýju heilsugæslustöðinni á föstudaginn.

Heilsutengdur þjónustukjarni

Heilsugæslan hefur til umráða 1.840 fermetra á 2. hæð í því sem fólk þekkir sem verslunarmiðstöðina Sunnuhlíð, en nefnt er heilsutengdi þjónustukjarninn Sunnuhlíð í frétt Regins, eiganda húsnæðisins, um flutning stofnunarinnar. Þar kemur einnig fram að enn séu laus rými til ráðstöfunar í Sunnuhlíð og er lögð áhersla á að bæta við rekstraraðilum í heilsutengdri þjónustu og verslun.

Nýbyggingin við norðurhlið verslunarmiðstöðvarinnar í Sunnuhlíð er í raun fyrsta heilsugæslustöðin sem ríkisvaldið byggir sérstaklega sem heilsugæslustöð á Akureyri, en fyrirhuguð heilsugæslustöð sem ætlunin er að rísi í norðvesturhluta tjaldsvæðisreitsins á gatnamótum Þingvallastrætis og Byggðavegar verður þá í raun fyrsta heila heilsugæslustöðin sem ríkisvaldið stendur að því að byggja alveg frá grunni. Á þetta benti Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, í umfjöllun Akureyri.net í desember og sagði þá kannski tíma til kominn að ríkisvaldið, sem aldrei hefur byggt heilsugæslustöð á Akureyri, hysjaði upp um sig buxurnar hvað það varðar.

Aðkoman að nýju heilsugæslustöðinni í Sunnuhlíð er afbragð.

Tíma heilsugæslulækna sóað?

Það hefur gustað nokkuð um starfsemi HSN og heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri undanfarin misseri eins og Akureyri.net hefur greint frá, meðal annars með brotthvarfi starfsfólks, lækna og annarra. Skortur á heimilislæknum hefur þar verið miðpunktur umræðunnar ásamt almennu álagi á starfsfólk. 

Í þessu sambandi hefur undanfarið einnig verið fjallað um verkefni heimilislækna í fjölmiðlum og þá einkum með tilliti til þess að í raun sé verið að sóa tíma þeirra í verkefni sem væri hægt að leysa með öðrum hætti, öðru starfsfólki eða jafnvel sjálfvirkni að hluta, í stað þess að heimilislæknar fórni dýrmætum tíma sem þeir gætu varið í að taka á móti og skoða og greina sjúklinga ef þessi verkefni væru ekki á þeirra höndum. Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, kom inn á þessa hlið málsins í umfjöllun Akureyri.net og talaði þá meðal annars um veikindavottorð vegna skóla og vinnu. Þá hefur komið fram að læknir verji miklum tíma í samskipti í gegnum samskiptagáttina Heilsuveru. Það er því ekki aðeins skortur á heimilislæknum heldur hefur verið bent á að nýta mætti tíma þeirra mun betur með einhvers konar kerfis- eða reglubreytingum.

Nýju húsakynnin í Sunnuhlíð eru björt og falleg. 

„Til langs tíma er húsnæði alger grunnforsenda þess að maður haldi fólki og geti fengið nýtt fólk til að sinna þessari mikilvægu þjónustu“, er haft eftir Jóni Helga í áðurnefndri frétt Regins, en hann kom einmitt inn á það sama í umfjöllun á Akureyri.net í desember þar sem hann sagði, meðal annars í framhaldi af ókyrrð sem kom upp í tengslum við það hvernig staðið var að skipulagsbreytingum í haust: „Það eru ákveðin tækifæri þegar við förum yfir í Sunnuhlíð, til að gera betur. Vissulega er það gott og flott hús, en ekki til mikils ef það er enginn starfsmaður þar.“

Þungar áhyggjur læknaráðs af viðvarandi fjársvelti

Þá eru einnig uppi deildar meiningar um fjárveitingar til heilsugæslunnar á Akureyri og hvort heilsugæslan á Akureyri sé yfir höfuð betur komin undir sameiginlegum rekstri HSN en sem sjálfstæð stofnun. Í júní í fyrra stóð læknaráð heilsugæslunnar á Akureyri að ályktun þar sem það fordæmir samþykki Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra fyrir skerðingu fjárveitinga til heilsugæslunnar á Akureyri frá því sem mælt er fyrir í fjárlögum og greiðslulíkani heilsugæslu. Þessi ákvörðun ráðherra er í ósamræmi við viðleitni hans til að bæta þjónustu og öryggi í heilbrigðiskerfinu. Læknaráð lýsir þungum áhyggjum af viðvarandi og vaxandi fjársvelti HAk sem hefur á ósanngjarnan hátt valdið viðvarandi undirmönnun og lagt yfirgengilegt álag á fjölda starfsmanna. Ætla má að þessi ákvörðun sé ríkjandi áhrifaþáttur í vaxandi veikindum starfsfólks og fjölgun fjarvistardaga vegna veikinda,“ segir í ályktun læknaráðsins. 

Inntakið í greinargerð læknaráðs með ályktuninni er að fjárveitinigar sem ættu í raun að ganga til heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri miðað við fjölda íbúa sem heyra undir starfssævði hennar hafi í raun verið notaðar til annars, það er samkostnaðar og í önnur óútskýrð útgjöld HSN, eins og það er orðað. 

Í greinargerðinni er því haldið fram að stjórn HSN hafi með samþykki heilbrigðisráðherra skert þjónustu við 22.500 skjólstæðinga HAk í vaxandi mæli undanfarin ár og hafi 836 milljónir króna af fjárveitingum til HAk verið notaðar í samkostnað og önnur óútskýrð útgjöld HSN, eða sem samsvarar tæpum þriðjungi af framlögum á árunum 2021 og 2022. Heimilt sé að taka allt að 14% í sannanlegan samkostnað stofnunar. „Þessi tilfærsla á fjármunum hefur viðhaldið óásættanlegri skerðingu á þjónustu við skjólstæðinga HAk og miklu álagi á starfsfólk HAk. Mikil vöntun er starfsfólki í nánast öllum starfsstéttum á heilsugæslunni. Það skapar þær aðstæður að starfsfólki er ómögulegt að veita þá þjónustu sem heilsugæslunni ber að veita,“ segir ennfremur í ályktun læknaráðsins frá júní í fyrra.