Fara í efni
Fréttir

Hef aldrei eldað eins mikinn fisk og núna!

Alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni Seafood Expo Global, sem haldin var í Barcelona, lauk á fimmtudag. Einar Geirsson, veitingamaður á Rub 23, hefur getið sér góðan orðstír á þessari sýningu og reyndar fleiri sjávarútvegssýningum í gegnum tíðina og jafnvel svo að fólk gerir sér sérstaka ferð í sýningarbás Samherja til að fá að smakka það sem Einar reiðir fram.

Þessi sama sýning var í fjölda ára haldin í Brussel í Belgíu, en hefur nýlega verið færð yfir til Spánar þar sem hún var haldin núna í vikunni. „Það hefur lengi verið altalað að þetta sé besti maturinn á sýningunni,“ sagði Einar þegar Akureyri.net sló á þráðinn til hans. Hann var þá á heimleið eftir góða daga í Barcelona. Hann kvaðst ánægður með hvernig til tókst að þessu sinni, reyndar eins og alltaf. Hann hefur nefnilega í gegnum tíðina gert fjölsóttan sýningarbás Samherja enn vinsælli með því að framreiða sælkerarétti fyrir gesti og gangandi að smakka. Einar bauð meðal annars upp á laxarétti, bleikju, þorsk og var líka að vinna með gellur og kinnar af þorskinum. „Ég held að ég hafi aldrei eldað eins mikinn fisk og núna. Þetta var allt upp á tíu,“ segir Einar.

Hugað að hverju smáatriði

Aðstaðan er til fyrirmyndar að sögn Einars, þó vissulega sé ekki um fullbúinn veitingastað að ræða, en þarna sé allt sem hann þurfi fyrir tiltölulega einfalda matseld. Engu að síður sé allt gert upp á tíu og hugað að hverju smáatriði. „Þetta er allt í smærri einingum sem smakksmammtar, við gerum sushi, eldum litla fiskrétti, djúpsteikjum og marinerum,“ segir Einar um matseldina. Sérmerktur bjór og vín, ásamt öðru hráefni og þurrvörum sem þola geymslu er sent út um viku fyrir sýninguna, en síðan er hráefninu, fiskinum sjálfum, sérpakkað og sent út með flugi þannig að þegar á sýninguna er komið er hann að vinna með ferskt hráefni.

Á þessari sýningu frá 2006

Einar segir Samherjamenn einfaldlega hafa haft samband við hann í upphafi til að fá hann með á þessa sýningu og matreiða afurðir fyrirtækisins handa þeim sem koma við í bás fyrirtækisins á sýningunni. Hann hefur matreitt fiskafurðir handa gestum sýningarinnar allt frá 2006 og reyndar fleiri sýningum og viðburðum sem tengjast Samherja.

„Þetta var bara eitthvað sem Samherjamönnum datt í hug. Þeir höfðu alltaf verið með eitthvað í einfaldari mynd, en fara svo út í að þróa og gera betur til að kynna sína vöru. Þeir hafa alltaf verið góðir viðskiptavinir og ég hleyp til og geri það sem þarf,“ segir Einar um samstarfið við Samherja. Hann hefur einnig farið með Samherjamönnum til Bandaríkjanna, meðal annars í tengslum við bleikjueldi fyrirtækisins og markaðssetningu þeirra afurða.

Samherji á sýningunni í Barcelona: Persónuleg samskipti eru nauðsynleg