Fara í efni
Fréttir

Hækkar orkuverð án vottunar? Nei eða já?

Mynd af vef Landsvirkjunar

Hækkar raforkuverð á Íslandi verulega eftir að upprunaábyrgðir hættu að fylgja frítt með raforkunni til sölufyrirtækja hér á landi um áramótin? Um þetta er deilt í greinum á Akureyri.net.

„Ef skilja á hreinleikavottorðin frá við sölu á raforku hér innanlands og selja sérstaklega á verði sem ákvarðast á samevrópskum orkumarkaði, sem nú er sagt vera 1,30 kr pr kílóvattstund, þá ætti raforkuverðið hér heima að lækka um sömu upphæð, því annars erum við gróft reiknað að tala um 15 - 25% hækkun á raforkuverði á einu bretti um áramótin háð þeim töxtum sem almenningur og fyrirtæki greiða nú fyrir raforkuna,“ skrifaði Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri á Akureyri, í grein sem birtist á Akureyri.net á þriðjudaginn.

Hólmgeir segir að ef Landsvirkjun lækki ekki verð á raforku innanlands sé um hreinræktuð vörusvik að ræða eða verðhækkun uppá 15 til 25% til íslensk iðnaðar og neytenda hér á landi.

Valur Ægisson forstöðumaður Viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun svaraði Hólmgeiri í grein sem birtist í gær: Þar segir hann það fásinnu að halda því fram að raforkuverð á Íslandi rjúki í hæstu hæðir. Upprunaábyrgðir Landsvirkjunar á upprunaábyrgðum raforku sé öll seld til fyrirtækja og einstaklinga á meginlandi Evrópu; tekjur af sölunni hafi verið 1 milljarður króna árið 2021, 2 milljarðar á nýliðnu ári.

Hólmgeir svaraði að bragði með grein sem birtist í gærkvöldi. „Hér á landi hafa íslensk fyrirtæki og heimili verið að kaupa græna orku sem er upprunavottuð, en um áramótin á að selja upprunavottorðin annað og mynda þannig nýjan tekjustofn sem Landsvirkjun áætlar að geti vaxið í allt að 15 milljarða,“ segir hann.

Hólmgeir segir einnig: „Það að upprunavottorð fylgi raforkunni til innlendrar notkunar er einfaldlega mjög mikilvægt því orkan okkar græna er ríkur þáttur í því að framleiðslan okkar, hvort heldur það er iðnaðarframleiðsla eða landbúnaðar- og matvælaframleiðsla, sé umhverfisvæn og þannig samkeppnishæf á markaði.“

Hér er fyrri grein Hólmgeirs Karlssonar

Hér er svargrein Vals Ævarssonar

Hér er seinni grein Hólmgeirs Karlssonar