Fara í efni
Fréttir

Hægt að vinna málið áfram af fullum krafti

„Vinna stýrihópsins gekk vel og ég fagna því að nú sé komin fram tillaga að skipulagi miðbæjarins sem hægt verður að vinna eftir strax á næsta ári,“ segir Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar, um tillögur sem verið er kynna á streymisfundi á Facebook síðu bæjarins.

Svæðið sem um ræðir afmarkast af Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu og Strandgötu.

Helstu leiðarljós núverandi skipulags eru sögð óbreytt. Markmiðið er sem fyrr að nýta betur opið landrými á milli Skipagötu og Glerárgötu með nýjum húsaröðum, stækka þannig miðbæinn og bæta tengingu við höfnina og Hof með rúmgóðum austur-vestur gönguásum.

„Ekki var samstaða í stýrihópnum um alla þætti skipulagsins en niðurstaðan er þó þannig að allir geti sætt sig við hana og því er hægt að vinna málið áfram af fullum krafti,” segir Þórhallur.

Hilda Jana Gísladóttir, formaður stýrihóps um uppbyggingu miðbæjarins, er einnig sátt. „Hlutverk stýrihópsins var að leita leiða til þess að gera breytingar á gildandi deiliskipulagi þannig að meirihluti bæjarstjórnar gæti samþykkt að vinna samkvæmt því. Það er sannarlega fagnaðarefni að það hafi tekist og að grunnhugmyndafræði skipulagsins byggi enn á vinnu sem kaupmenn í bænum hófu undir merkjum Akureyri í öndvegi og vinningstillögu úr hugmyndasamkeppni sem haldin var árið 2005. Vonandi verður þessi vinna til þess að löngu tímabær uppbygging geti hafist hið fyrsta,“ segir Hilda Jana.

Sjáðu tillögurnar HÉR