Fara í efni
Fréttir

Grindhvalir eru það á Pollinum – MYNDIR

Nokkrir hvalir gerðu sig heimankomna á Pollinum í morgun, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Að sögn starfsmanna Whale Watching Akureyri, sem sigldu með ferðamenn um Pollinn, eru það grindhvalir sem þarna voru á ferð. Þeir eru af ættkvísl tannhvala af höfrungaætt og eru mjög algengir við Íslandsstrendur.

Starfsmennirnir vildu ráða fólki frá því að fara út á Pollinn á brettum því að minnsta kosti væri einn kálfur í vöðunni og þegar dýrin legðu áherslu á að vernda afkvæmi sín væru tannhvalir almennt árásargjarnir, þótt ekki væri hægt að fullyrða það þegar grindhvalir ættu í hlut.

Það voru starfsmenn hvalaskoðunarfyrirtækisins, Whale Watching Akureyri, sem tóku meðfylgjandi myndir; Gema Alvarez, Gisela Solà Boloix og Ania Wojcik.