Fara í efni
Fréttir

Göngugötunni ekki lokað í allt sumar

Séð norður Hafnarstrætið - göngugötuna. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Uppfærð frétt kl. 14:49.

Skipulagsráð Akureyrar felldi á fundi sínum í morgun tillögu Hildu Jönu Gísladóttur, bæjarfulltrúa S-lista, um að hluta Hafnarstrætis, göngugötunni eins og sá hluti er oft kallaður, verði lokað fyrir vélknúnum ökutækjum yfir sumarmánuðina. 

Bæjarstjórn tók tillögu Hildu Jönu fyrir á fundi 18. apríl, ásamt tillögum frá Jönu Salóme Ingibjargar Jósepsdóttur, bæjarfulltrúa V-lista, um orðalag í reglum um tímabundnar lokanir gatna, og var þá samþykkt með níu atkvæðum að vísa málinu til skipulagsráðs og því falið að leggja mat á reynslu síðasta sumars á núgildandi reglum og taka tillögurnar til umræðu, ljúka yfirferðinni og leggja fram tillögu til bæjarstjórnar í maímánuði.

Tillaga Hildu Jönu gekk út á lokun í júní, júlí og ágúst, en þó þannig að tryggt yrði aðgengi fyrir P-merkt ökutæki fyrir hreyfihamlaða, ökutæki viðbragðsaðila og fyrirtæki í götunni vegna aðfanga og hefur Hilda Jana einnig nefnt þann valkost að breytingin sem hún lagði til tæki gildi sumarið 2024.

Fara burt ef lokunin verður almenn

Afgreiðsla skipulagsráðs í morgun á tillögunni þýðir þó ekki að göngugötunni verði ekkert lokað í sumar enda eru í gildi verklagsreglur um tímabundnar lokanir gatna, sem tillögur bæjarfulltrúanna snerust um að breyta. Af bókun skipulagsráðs í morgun má ráða að ef ákveðið yrði að loka götunni fyrir almennri umferð ökutækja alla daga yfir sumarmánuðina myndu einhver fyrirtæki flytja sig úr miðbænum. Vera heilsugæslustöðvarinnar í miðbænum virðist einnig hafa áhrif á afstöðu meirihlutans í málinu, miðað við bókun skipulagsráðs.

Bókun meirihluta skipulagsráðs í morgun var eftirfarandi:

Meirihluti skipulagsráðs leggur til að hlustað verði á núverandi rekstraraðila í miðbænum sem telja sig þurfa að flytja sig um set ef af meiri lokun verður og þurfi lengri frest til þess, en tæpa tvo mánuði. Meirihluti skipulagsráðs leggur því til við bæjarstjórn að halda sig við núverandi reglur um lokun, en telur að bæta megi við núgildandi lokun, sambærilegri lokun á sunnudögum í júní og ágúst. Þá er heldur ekki hægt að horfa framhjá því að heilsugæslustöðin kemur ekki til með að flytja fyrr en næstkomandi áramót og aðgengi að henni þurfi að vera gott fyrir öll. Meirihluti skipulagsráðs leggur til að haustmánuðir verði nýttir til þess að undirbúa frekari tillögur að lokun og að gerð verði skoðunarkönnun á meðal bæjarbúa.

Segja má að afgreiðsla skipulagsráðs sé endanleg þó formlegi hlutinn, endanleg ákvörðun bæjarstjórnar, sé eftir. Vilji meirihlutans liggur fyrir með afgreiðslu skipulagsráðs í morgun, en næsti fundur bæjarstjórnar er ekki fyrr en 6. júní. 

Vonbrigði og kemur ekki á óvart

Í framhaldi af fundi skipulagsráðs í morgun birti Hilda Jana mynd úr Hafnarstrætinu og skrifaði eftirfarandi á Facebook: 

Það kemur kannski ekki á óvart, en engu að síður vonbrigði að fulltrúar Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins, L-listans og óháðra hafi í morgun fellt tillögu mína um að göngugötunni verði lokað fyrir vélknúin ökutæki yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst, á sama tíma og aðgengi verði á þeim tryggt fyrir P-merkta bíla, ökutæki viðbragðsaðila og aðföng rekstraraðila. Göngugatan í hjarta bæjarins á að iða af mannlífi, ekki síst að sumri til, þar sem notarlegt er að dvelja um lengri og skemmri tíma, en það er augljóslega betra án bílaumferðar á þessum 177 metra kafla sem göngugatan er.

Skjáskot af pistli Hildu Jönu: