Fara í efni
Fréttir

Góð einbeiting og mikill vilji skiptir sköpum

Harrison Butler, sem hér brunar framhjá borgnesingnum Marinó Pálmasyni í gærkvöldi, var frábær í leiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar lögðu Skallagrím að velli í gærkvöldi í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta eins og Akureyri.net greindi frá síðla kvölds. Óhætt er að segja að viðureignin hafi verið sveiflukennd; eins og sjá má á tölunum hér að neðan skoruðu Þórsarar 24 stig í fyrsta leikhluta, 8 í öðrum, 19 í þriðja og 34 í þeim fjórða og síðasta!

  • Skorið eftir leikhlutum: 24:19 – 8:26 – 32:45 –19:16 – 34:19 – 85:80

Langt er síðan sá sem þetta skrifar hefur séð jafn berlega hve hausinn skiptir miklu máli í íþróttakappleik; að leikmenn séu rétt stemmdir, einbeittir og hafi trú á verkefninu.

Þetta var fimmti og síðasta leikur liðanna í rimmunni. Ljóst var að tapliðið færi í sumarfrí en sigurvegarinn mætti ÍR í undanúrslitum keppni um sæti í efstu deild næsta vetur.

Fyrsti leikhluti var jafn og Þórsarar með fimm stiga forskot að honum loknum. Annar leikhluti fer hins vegar í sögubækur Þórs því þá gerði liðið aðeins átta stig – já, átta stig á 10 mínútum. Það hlýtur að vera félagsmet eða stappa nærri því. Leikur liðsins var í molum, ekkert gekk upp og trúin virtist á bak á burt á meðan gestirnir léku við hvern sinn fingur og voru komnir með 13 stiga forystu í hálfleik. 

Skallagrímur náði mest 20 stiga forystu, 61:41 snemma í þriðja leikhluta, og vonleysið virtist allsráðandi hjá Þórsurum, bæði innan og utan vallar. Þeir réttu þó úr kútnum og munurinn var kominn niður í 10 stig fyrir síðasta leikhluta. Sá verður einnig lengi í minnum hafður en fyrir aðrar sakir en átta stiga-fjórðungurinn fyrr í leiknum því þá blómstraði liðið, hreinlega valtaði yfir gestina og vann að lokum sannfærandi sigur!

Harrison Butler, sem hefur verið ærið misjafn í undanförnum leikjum, sýndi sannarlega hvers hann er megnugur. Hann fór hamförum framan af leik og gerði til dæmis 16 af fyrstu 18 stigum Þórsara og 19 af 24 í fyrsta leikhluta. Ekkert var hins vegar að frétta af honum í öðrum leikhluta, hann gerði svo 8 stig í þriðja hluta og hrökk aftur í lokahlutanum og gerði þá 15 stig, þar af þrjár 3ja stiga körfur. Magnaður leikmaður þegar sá gállinn er á honum. Liðsheildin getur verið það líka, þegar allir eru rétt stemmdir.

Helsta tölfræði Þórsara

  • Harrison Butler 42 stig – 10 fráköst – 4 stoðsendingar
  • Jason Gigliotti 21 – 11 – 1
  • Reynir Róbertsson 10 – 3 – 1
  • Smári Jónsson 8 – 3 – 5
  • Andri Már Jóhannesson 2 – 2 – 0
  • Baldur Jóhannesson 2 – 9 – 3
  • Páll Nóel Hjálmarsson 0 – 1 – 0

Kátt var í Höllinni í gærkvöldi; ungir sem aldnir voru himinlifandi að leikslokum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrsti leikur ÍR og Þórs í undanúrslitunum verður í Reykjavík á miðvikudaginn.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina frá því í gærkvöldi.