Fara í efni
Fréttir

Gleðilegt nýtt ár – takk fyrir 2022!

Fallegt var um að litast á Akureyri að morgni þessa fyrsta dags ársins - eins og jafnan áður. Ljósmynd: Hörður Geirsson.

Akureyri.net óskar lesendum sínum og velunnurum gleðilegs nýs árs og þakkar innilega fyrir árið sem var að kveðja.

2022 var annað heila starfsár Akureyri.net síðan vefmiðillinn var endurvakinn af nýjum eigendum í nóvember 2020. Viðtökur voru afar góðar strax í upphafi; bæjarbúar, Akureyringar búsettir annars staðar og aðrir áhugamenn um dýrðarstaðinn við fjörðinn fagra, tóku miðlinum fagnandi. Lestur hefur verið gríðarlegur og aukist jafnt og þétt. 

  • Nokkra síðustu mánuði nýliðins árs voru heimsóknir að meðaltali yfir 6.000 á dag
  • Í september og október voru „einstakir gestir“ liðlega 52.000 og er þá hver og einn (hver IP tala) aðeins talinn einu sinni.
  • Íbúar á Akureyri eru 19.000 þannig að gestafjöldinn er í raun stórmerkilegur.
  • Flettingar voru rúmlega 1,1 milljón á mánuði á síðasta fjórðungi ársins.

Sem fyrr leitast Akureyri.net við að fjalla sem mest og best um hvaðeina í akureyrsku mannlífi. Miðillinn segir allar almennar fréttir, fjallar um íþróttir, menningu og fjölbreytt mannlíf á margvíslegan og myndrænan hátt. Slagorðið Oftast sólarmegin féll augljóslega í góðan jarðveg, lesendur hafa lýst ánægju með efnistök og hvatt undirritaðan til dáða. Þeir hafa verið duglegir við að benda á áhugavert efni af ýmsu tagi og ástæða er til þess að hvetja fólk til að halda því áfram.

Best er að senda ábendingar um efni á netfangið skapti@akureyri.net eða með því að hringja í síma 669-1114.

Áfram Akureyri!

Bestu kveðjur,

Skapti Hallgrímsson
ritstjóri Akureyri.net