Fara í efni
Fréttir

Rakel ráðin í hálft starf sem blaðamaður

Ritstjórnarfundur! Haraldur Ingólfsson, Rakel Hinriksdóttir og Skapti Hallgrímsson ritstjóri Akureyri.net.

Rakel Hinriksdóttir hefur verið fastráðin í hálft starf sem blaðamaður við Akureyri.net. Hún hefur skrifað efni af ýmsu tagi fyrir vefinn síðustu mánuði, meðal annars mjög áhugaverð mannlífsviðtöl og heldur því áfram ásamt því að sinna fréttaskrifum.

Rakel, sem er menntaður grafískur hönnuður, var dagskrárgerðarkona á sjónvarpsstöðinni N4 þar sem hún stýrði m.a. vinsælum viðtalsþáttum. Hún er Þingeyingur en hefur verið búsett á Akureyri frá 12 ára aldri fyrir utan nokkur ár í Danmörku og Bandaríkjunum, þar sem hún var í háskólanámi og lék knattspyrnu. Rakel var um árabil leikmaður knattspyrnuliðs Þórs/KA.

Ánægjuleg tímamót

Ráðning Rakelar eru ánægjuleg tímamót í sögu Akureyri.net. Undirritaður hefur verið eini fasti starfsmaðurinn frá því vefurinn var endurvakinn um miðjan nóvember árið 2020. Unnið hefur verið með það í huga að dropinn holi steininn; að sígandi lukka sé best. Tekist hefur að byggja vefinn upp með skynsömum hætti, hann hefur fest sig rækilega í sessi og nýtur mikill vinsælda og velvildar lesenda.

Haraldur Ingólfsson verður áfram lausráðinn blaðamaður í um það bil hálfu starfi, vefurinn státar af afragðs pistlahöfundum og nýtur liðsinnis nokkurra prýðilegra ljósmyndara. 

Dyggir lesendur eru fjölmargir og víða, innanlands sem utan. Fjöldinn raunar ótrúlegur; heimsóknir eru um 12.000 að meðaltali á dag og flestir „einstakir gestir“ komu inn á Akureyri.net í nóvember síðastliðnum – 89.222 IP tölur, hver og ein aðeins talin einu sinni óháð því hve viðkomandi las vefinn oft.

Margir eiga tvær IP tölur, síma og tölvu, en vert að nefna að íbúar Akureyrar eru 20.000. Það sýnir svart á hvitu að gríðarlegur fjöldi lesenda býr annars staðar.

Flettingar hafa flestar verið um 2 milljónir á mánuði.

Ég vil nota tækifærið og þakka lesendum fyrir móttökurnar og vona að þeir verði áfram samferða. Án lesenda væri tilgangslaust að halda úti vef sem þessum. Sérstakar þakkir færi ég þeim hópi fólks sem styður við bakið á Akureyri.net með mánaðarlegu fjárframlagi. Sá stuðningur er ómetanlegur.

Kærar kveðjur.

Skapti Hallgrímsson
ritstjóri Akureyri.net