Fara í efni
Fréttir

Gistiheimilið selt eftir 50 ár í fjölskyldunni

Friðrik Karlsson, til vinstri, og Gunnar Árnason sem keypti Stórholt 1. Ljósmyndir: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir.

Athafnamaðurinn og múrarinn Gunnar Árnason, einn eiganda Verkvíkur-Sandtak ehf. hefur fest kaup á gistiheimilinu Stórholti 1. Gistiheimilið hefur verið í eigu sömu fjölskyldu í meira en hálfa öld.

Gunnar hefur keypt nokkur hús á Eyrinni og gert þau upp. Tvö þeirra eru leigð út til ferðamanna, þ.e. Gránufélagsgata 19 og Eiðsvallagata 18. Lesa má viðtal við Gunnar um uppgerð gamalla húsa á Eyrinni hér: Miklir möguleikar eru á Eyrinni | akureyri.net

Stefnir á að flytja alfarið norður

Um kaupin á Stórholti 1 segir Gunnar að með þeim vilji hann styrkja þann rekstur sem hann er nú þegar með hér á Akureyri og meiningin sé að draga sig út úr verktakabransanum, flytja norður og fara alfarið í ferðamannaiðnaðinn.

Gistiheimilið að Stórholti er stórt og glæsilegt hús með 18 herbergjum. Auk þess eru á lóðinni tvö sex manna frístundahús, hvort um sig með þremur svefnherbergjum og eldunaraðstöðu.

Um hvort farið verði út í breytingar á gistiheimilinu segir Gunnar: „Ekki neitt þetta árið fram að nóvember þá verður lokað í fjóra mánuði og farið í framkvæmdir. Í sumar verður þetta rekið óbreytt því það er þegar búið að bóka.“ Gunnar bætir við: „Ég hef líka fullan hug á að gera eitthvað við lóðina; hún býður upp á ýmsa möguleika.“

Nánast fullbókað á Eyrinni

Akureyri er vinsæll ferðamannastaður og útlit fyrir auknu millilandaflugi hingað í sumar, segir Gunnar, þar sem erlend flugfélög séu að horfa hingað. „Það er nánast fullbókað í húsin á Eyrinni fram í október og ekkert mál að bóka upp í topp.“

Rekstur Gunnars mun skapa fimm til sjö störf, auk aðkeyptrar þjónustu. Edda Bjarnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastýra en hún hefur áratuga reynslu af hótelrekstri. Svo skemmtilega vill til að eiginmaður hennar, Hermann Ísidórsson matreiðslumeistari og Gunnar kynntust þegar þeir voru í leikskóla og eru því æskufélagar.

Þegar Gunnar er spurður þeirrar klassísku spurningar hvort gæludýr verði leyfð í húsunum segir hann að hugsanlega verði þau leyfð í frístundahúsunum, en ekki stóra húsinu, en engin ákvörðum hafi verið tekin um það enn sem komið er.