Fara í efni
Mannlíf

Miklir möguleikar eru á Eyrinni

Lundargata 6 í júní á þessu ári.

Vinirnir Gunnar Árnason og Bjarni Björnsson hafa staðið í stórræðum við endurbyggingu húsa á Oddeyri eins og fram kemur í spjalli við Gunnar á Akureyri.net í morgun – sjá HÉR. Þeir eru vanir svona húsabrasi, eins og Gunnar orðar það og kveðst sjálfur hafa verið í byggingabransanum alla ævi. 

„Ég dró Bjarna með í þessa vitleysu hérna fyrir norðan, en hann hefur ýmislegt brallað fyrir sunnan með fasteignir,“ segir hann. „Það þyrftu fleiri að fara í svona framkvæmdir á Eyrinni. Hér eru glæsileg hús sem líða fyrir viðhaldsleysi. Það er líka vandamál þegar það eru margir eigendur. Húsin þurfa helst að hafa samhenta eigendur eða vera bara á einni hendi ef það á að vera hægt að fara í svona uppgerð.“

Gunnar segir Akureyringa lengi hafa litið niður á Eyrina, „en utanaðkomandi átta sig frekar á kostunum. Það var t.d. Verkalýðsfélag Grindavíkur sem keypti af mér Lundargötu númer 11. Þeir græjuðu húsið að innan fyrir sína notkun og þetta er notað sem orlofshús í dag. Menn horfa á nálægðina við miðbæinn. Eins þegar skemmtiferðaskipin koma hingað þá er hér allt fullt af ferðamönnum sem ganga um til að skoða gömlu húsin og hverfið. Svo er þetta víða bara allt í drasli.“ Gunnar bætir við: „Einhver hús verða náttúrlega rifin enda ekki hægt að bjarga þeim lengur. En önnur má alveg gera upp, en þá þarf oft nýja eigengur sem hafa getu til, og áhuga. Ég tel líka mikilvægt að þau hús sem koma ný í stað þeirra sem víkja verði byggð í anda þeirra sem fyrir eru. Eyrin verður ekki gerð upp í gömlum stíl öðruvísi.“ Og Gunnar bætir við: „það náttúrlega gerir enginn svona nema hafa gaman af því og hafa til þess fé, þetta er alveg galin vinna. Við höfum líka kynnst góðum iðnaðarmönnum hér á Akureyri sem hafa gert mikið fyrir okkur og staðið sig vel.“

Eitthvað kostar þetta!

„Já, það gerir enginn svona til að hagnast á því. Þetta er verkefni sem er gert til gamans og við erum líka bara í aðstöðu til að geta gert þetta almennilega“, svarar Gunnar.

Er hann kominn með augastað á fleiri húsum hérna?

„Ég þarf nú að byrja á því að klára bakhúsin, eins og maður segir, ég er ekki að reyna að leggja undir mig Eyrina, þetta er bara áhugamál, ég þarf að vinna líka alvöru vinnuna mína svo ég hafi efni á þessari vitleysu!“ segir Gunnar að lokum.