Fara í efni
Fréttir

Garðeigendur mega fella tré að vild

Húsið Aðalstræti 19 og lóðin sunnan við hús áður en tréð var fellt og á eftir. Myndirnar eru teknar úr austri, úr götunni Duggubjöru.

Garðeigendum á Akureyri er frjálst að fella hvaða tré sem er kjósi þeir að gera það. Samþykkt um verndun trjáa frá árinu 2002, þar sem talað er um að leyfi þurfi fyrir fellingu trjáa sem eru yfir 8 metrar á hæð eða yfir 60 ára gömul, er ekki lengur í gildi á Akureyri en er hins vegar enn í gildi í Reykjavík.

Þetta kom í ljós við eftirgrennslan blaðamanns  í kjölfar þess að skógræktarmenn hrukku sumir hverjir í kút á dögunum þegar stórt tré í garðinum að Aðalstræti 19 á Akureyri var fellt. Umrætt tré, síberíulerki, var sennilega rúmlega 100 ára gamalt og teygði sig 17 metra til himins. Talið er að það hafi verið hæsta tré í bænum um tíma.

Trjástubburinn sunnan við húsið Aðalstræti 19. Rétt er að ítreka að eigendur hússins höfðu fullt leyfi til að fella tréð, öfugt við það sem sumir héldu upphaflega.

Rakel Hinriksdóttir blaðamaður fjallar um málið í pistli sem birtist á Akureyri.net í dag.

„Akureyri hefur verið oft verið rómuð fyrir fagra bæjarmynd og þar spilar trjágróðurinn stórt hlutverk. Það hefur farið þónokkur vinna í það hjá ýmsum aðilum í gegn um tíðina, að skoða og kortleggja sjaldgæf og einstök tré á Akureyri,“ segir Rakel í pistlinum. „Að ímynda sér Akureyri án trjátoppanna, sem rísa upp úr byggðinni, er svolítið kuldalegt. Staðreyndin er samt sú, að tæknilega séð gætu garðaeigendur bæjarins fellt trén sín eitt af öðru og ekkert væri út á það að setja.“

Á morgun birtir Akureyri.net viðtal við Pál Jakob Líndal, umhverfissálfræðing, um þetta viðfangsefni.

Pistill Rakelar: Hvernig væri Akureyri án stóru trjánna?