Fara í efni
Fréttir

Akureyrarbær greiddi 1,7 milljarða fyrir ríkið

Akureyrarbær varði alls 1,7 milljarði króna af útsvarstekjum bæjarins til reksturs hjúkrunarheimila bæjarins – Hlíðar og Lögmannshlíðar – á árunum 2012 til 2020. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, upplýsti um þetta á bæjarstjórnarfundi síðdegis.

Ríkinu ber að greiða fyrir rekstur heimilanna en árum saman hafa framlög þess, daggjöldin, ekki staðið undir kostnaði, og því hefur Akureyrarbær, sem sér um reksturinn fyrir Sjúkratryggingar Íslands (SÍ), samtals greitt fyrrnefnda upphæð. Guðmundur Baldvin sagði bæinn lengi hafa lifað í þeirri von að úr rættist en þegar endanlega var útséð með það hefði verið ákveðið í apríl á síðasta ári að segja upp samningi við SÍ um reksturinn. Bærinn væri nauðbeygður til þess.

Fyrir nokkrum árum kom fram að frá 2012 til 2016 greiddi Akureyrarbær alls 843 milljónir með rekstrinum. Guðmundur Baldvin greindi frá því að í framhaldinu hefði Akureyrarbær sent heilbrigðisráðherra kröfubréf um að ríkið endurgreiddi þá upphæð með vöxtum. „Svarið var einfalt: Nei,“ sagði formaður bæjarráðs.

Guðmundur Baldvin sagði í dag að samkvæmt útreikningum sviðsstjóra fjársýslusviðs Akureyrarbæjar hefði framlag bæjarins til reksturs heimilanna tveggja numið 480 milljónum króna frá 2017 til 2019 og alls 400 milljónum króna árið 2020, miðað við bráðabirgðauppgjör.

„Ríkið ber ábyrgð á hjúkrun aldraðra og öllum rekstri hjúkrunarheimila. Daggjöldin duga einfaldlega ekki fyrir rekstrinum – þau duga varla fyrir launum í dag,“ sagði Guðmundur Baldvin á fundinum. Hann ítrekaði að með því greiða með rekstri öldrunarheimilanna væri bærinn að ráðstafa útsvarstekjum til ríkisins og það væri ekki hans hlutverk. „Þegar við leggjum þessa fjármuni inn í þennan rekstur, þá kemur það niður á annarri þjónustu í sveitarfélaginu, hvort sem við lítum til þjónustu við aldraða almennt eða þeirrar margþættu þjónustu sem við erum að veita í bænum.“

Akureyrarbær tilkynnti Sjúkratryggingum Íslands í apríl á síðasta ári að samningur um rekstur hjúkrunarheimilanna yrði ekki endurnýjaður, sem fyrr segir. Hann rann út um áramót en svo fór að í árslok var hann framlengdur í fjóra mánuði, út apríl, með því skilyrði af hálfu Akureyrarbæjar að sveitarfélagið bæri engan kostað af rekstrinum þann tíma.