Fara í efni
Fréttir

Gæta verður hagsmuna eldra fólks

Gæta verður hagsmuna eldra fólks

Björn Valur Gíslason, sjómaður og fyrrverandi alþingismaður VG, segir viðbrögð þriggja bæjarfulltrúa við grein sem hann skrifaði um málefni Öldrunarheimila Akureyrar, og birtist á Akureyri.net fyrr í vikunni, ekki málefnaleg, og ítrekar í nýrri grein að útskýri þurfi málið betur fyrir bæjarbúum.

„Undirtónninn í viðbrögðum þeirra er því miður litaður af persónu minni og fyrri störfum í stjórnmálum og jafnframt gefið í skyn að annarlegar hvatir séu að baki greinaskrifum mínum. Þannig nefna þau VG alls sex sinnum í þessum stutta pistli sínum í þeim tilgangi að gera skrif mín tortryggileg og gefa þannig í skyn að þau eigi sér pólitískar rætur. Þetta þykir mér miður,“  segir Björn Valur.

„Viðbrögð forystufólks bæjarstjórnar við grein minni benda til þess að þau líti ekki lengur svo á að bærinn sé málsvari eldra fólks í málefnum hjúkrunarheimila heldur skuli nú leita beint til ríkisins með öll slík mál. Sé það raunin er það mikið áhyggjuefni en undirstrikar vel hversu stór ákvörðun það var hjá bæjarstjórn að segja samningnum upp. Við skulum ekki ætla annað en að fyrr eða síðar muni rísa ágreiningur á milli nýs rekstraraðila og ríkisins um mál tengd rekstri ÖA. Eldra fólk verður þá að geta treyst því að bæjarstjórn gæti hagsmuna þeirra hverju sinni og sé jafnframt málsvari þess þegar á þarf að halda.“

Sinnuleysi

Í svari bæjarfulltrúanna þriggja kemur fram að þau viti ekkert um nýjan samning Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og einkafyrirtækisins Heilsuverndar um rekstur ÖA og því sé til lítils að spyrja þau um innihald hans. Þessu á ég bágt með að trúa en sé þetta virkilega þannig er að mínu mati um ákveðið sinnuleysi að ræða af hálfu bæjarstjórnar. Akureyrarbær hefur enn ýmsa félagslega þjónustu við eldri bæjarbúa á sinni könnu sem áfram þarf að sinna. Bærinn hlýtur að þurfa að gera ráð fyrir því í rekstri sínum á næstu árum að sú þjónusta kunni að aukast í framhaldi af yfirtöku einkafyrirækis á rekstri ÖA. Það verður varla gert nema að hafa upplýsingar um samning SÍ og nýs rekstraraðilans til hliðsjónar. Það heyrir upp á bæjarfulltrúa að upplýsa okkur hin og ekki síst eldra fólk um þær breytingar sem kunna að verða á rekstri ÖA og þá einnig hvort og þá hvaða breytingar gætu orðið á þeirri þjónustu sem bærinn veitir nú þegar og verði væntanlega áfram.“

Smelltu hér til að lesa grein Björns Vals

Fyrri grein Björns Vals

Svar bæjarfulltrúanna þriggja