Fara í efni
Fréttir

Framkvæmdir hafnar, kirkjutröppunum lokað

Kirkjutröppurnar verða ekki í boði sem samgönguleið, hvorki upp né niður, næstu mánuðina. Vinna er hafin við endurbætur. Myndir: Haraldur Ingólfsson

Akureyri.net fjallaði fyrir um tveim vikum um væntanlegar framkvæmdir við kirkjutröppurnar við Akureyrarkirkju og næsta umhverfi. Upplýst var að tröppurnar yrðu alveg lokaðar á framkvæmdatímanum, sem líklegt er að verði nokkrir mánuðir og þá jafnvel alveg fram á næsta vor. Nú er komið að því, búið að girða fyrir aðgang að þessari vinsælu gönguleið og menn að hefja vinnu við endurbætur á tröppunum. 

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur framkvæmdin einnig áhrif á bílastæðin meðfram Kaupvangsstrætinu. Hluti af framkvæmdinni tengist einnig áningarstað, handriði og göngustíg frá tröppunum að Sigurhæðum. 

Um framkvæmdina sjálfa er ekki miklu við síðustu frétt að bæta, en heimafólk og gestir þurfa að finna sér aðrar gönguleiðir en tröppurnar í einhverja mánuði. 

Uppfært:

Gönguleið úr Hafnarstræti, upp tröppur sunnan við Hafnarstræti 81 að Sigurhæðum verður ekki lokað vegna framkvæmda sem nú eru hafnar við kirkjutröppur Akureyrarkirkju og næsta umhverfi.

Fram kom í fyrri frétt okkar að þessi leið yrði lokuð vegna framkvæmda við göngustíginn og handrið frá kirkjutröppunum að Sigurhæðum, en það virðist hafa verið á misskilningi byggt. Samkvæmt ábendingu frá Sigurði Gunnarssyni, verkefnisstjóra nýframkvæmda hjá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, er búið að endurbæta tröppurnar og verða þær í notkun í allt sumar sem aðalaðkoma að Sigurhæðum og síðan hægt að halda áfram þaðan upp stíg sem nú er verið að lagfæra frá Sigurhæðum upp á Eyrarlandsveg og þaðan til dæmis áfram upp í Lystigarð.

Skilti með merkingum um hjáleiðir verða sett upp í tengslum við framkvæmdirnar og lokun kirkjutrappanna.


Þessari mynd verður komið fyrir í miðbænum til leiðbeiningar fyrir ferðafólk um hjáleiðir, til dæmis upp í Lystigarðinn.


Tröppurnar sunnan við Hafnarstræti 81 hafa verið endurbættar og verða aðalgönguleiðin neðan úr bæ upp í Sigurhæðir á meðan á framkvæmdum stendur.


Gömul gönguleið milli Sigurhæða og Eyrarlandsvegar hefur öðlast endurnýjun lífdaga.


Bílastæðin ofan við gömlu náðhúsin í Kaupvangsstrætinu hafa verið girt af vegna framkvæmdanna.

Lok, lok og læs og allt í stáli. Lokað fyrir ... öllum.