Fara í efni
Fréttir

Framkvæmd breytinga heppnaðist ekki vel

„Við getum ekki annað en bara lært af því. Það er engin leið að taka það til baka sem búið er,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, um óánægju sem kom upp í tengslum við framkvæmd skipulagsbreytinga. Mynd: Þorgeir Baldursson

Ýmis spjót hafa staðið á yfirstjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) undanfarnar vikur, einkum í tengslum við starfsmannamál og skipulagsbreytingar. Framkvæmdastjórn fór í skipulagsbreytingar sem mæltust misvel fyrir meðal starfsfólks og uppsagnir hafa aukið á mönnunarvanda á Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Í raun eru alltof fáir íbúar á Akureyri með sinn eigin heimilislækni og þörf á að nánast tvöfalda fjölda þeirra miðað við viðtekin viðmið um fjölda íbúa að baki hverjum heimilislækni.

Engu að síður eru einnig jákvæð teikn á lofti og ýmislegt í farvatninu sem vekur vonir um betri tíð, flutningur á nýja heilsugæslustöð og fjölgun sérnámslækna í heimilislækningum svo dæmi sé tekið.

Tíðindamaður Akureyri.net ræddi við Jón Helga Björnsson, forstjóra HSN, um þau mál sem hafa verið í brennidepli, skipulagsbreytingarnar, mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu og rekstur HSN og heilsugæslustöðva almennt, einkarekstur og þjónustusamninga, staðsetningu nýrrar stöðvar sem áformað er að verði tilbúin eftir um þrjú ár og fleira. Umfjöllun um málefni HSN verður í nokkrum hlutum í dag og næstu daga.

  • Á MORGUN Vinna að bættu samstarfi og starfsanda 

Ekki er alltaf allt sem sýnist og sumt af því sem fram hefur komið í fréttum og umræðunni jafnvel byggt á misskilningi, en Jón Helgi viðurkennir þó fúslega að framkvæmd breytinganna hafi ekki heppnast vel af hálfu yfirstjórnarinnar og þau geri sér fyllilega grein fyrir að betur hefði mátt standa að þeim. „Við getum ekki annað en bara lært af því. Það er engin leið að taka það til baka sem búið er,“ segir Jón Helgi.

Mistök í auglýsingu leiðrétt

Í frétt á Vísi í liðinni viku var því lýst að ljósmæðrum væri brugðið við framgöngu stjórnenda HSN og meðal annars vitnað í að formaður Ljósmæðrafélags Íslands hafi gert athugasemd við að auglýst hafi verið eftir hjúkrunarfræðingi eða ljósmóður í sameinað starf yfirmanns mæðraverndar og ung- og smábarnaverndar.


Skjáskot af frétt Vísis 7. desember um málefni ljósmæðra á HSN.

Jón Helgi og Hildur Ösp Gylfadóttir, mannauðsstjóri HSN, svara því til að þau mistök hafi verið gerð við vinnslu auglýsingarinnar að þar hafi átt að standa að ráðningarkjör væru tengd viðkomandi stéttarfélagi, en út hafi farið að það væri við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Það hafi verið lagfært í auglýsingu um leið og ábendingin barst og auglýsingin framlengd.

Ráða ekki hjúkrunarfræðing í starf ljósmæðra

Jón Helgi og Hildur Ösp taka fram að til að koma í veg fyrir misskilning þá hafi aldrei verið ætlunin að láta hjúkrunarfræðing sinna lögbundnu starfi ljósmæðra. „Við vorum að auglýsa eftir deildarstjóra sem kemur meðal annars að skipulagi og stjórnun einingarinnar og á að vinna í samráði við fagstjóra. Ef deildarstjóri er ljósmóðir þá verður hluti af klínískri vinnu hans í mæðravernd eða ung- og smábarnavernd, en ef deildarstjóri er hjúkrunarfræðingur þá verður hluti af klínískri vinnu hans aðeins í ung- og smábarnavernd,“ segir í athugasemd þeirra. Þessu hafi verið komið á framfæri við formann Ljósmæðrafélags Íslands strax í október.

Sameining fámennra deilda

Þau benda á að með þessari skipulagsbreytingu hafi tvær fámennar deildir innan heilsugæslunnar verið sameinaðar og sumar ljósmæður sem eru að störfum hjá stofnuninni séu í hlutastarfi á báðum þessum deildum. Þannig sé það víða innan stofnunarinnar og hér á landi, að næsti yfirmaður ljósmæðra sé hjúkrunarfræðingur.

Jón Helgi segir þessar breytingar varðandi mæðraverndina og ung- og smábarnaverndina snúast einfaldlega um að nýta mannauðinn betur og brjóta niður deildamúra.

„Þetta voru tvær deildir, mæðravernd og ung- og smábarnavernd. Við töldum hyggilegt að sameina þær undir einni stjórn, einfaldlega til að nýta mannskapinn betur. Sú stjórnunarstaða er auglýst og það sótti engin um þannig að þá höfum við ráðið tímabundið í starfið, aðila sem er tilbúinn að stýra henni um sinn. Það er af og frá að við ætlum hjúkrunarfræðingum að fara að vinna störf ljósmæðra,“ segir Jón Helgi.

Brjóta niður deildamúra

Hann bendir á að á Húsavík sé ljósmóðir yfirmaður allrar heilsugæslunnar í Þingeyjarsýslum, en á öðrum starfsstöðvum sé það hjúkrunarfræðingur sem sé næsti yfirmaður. „Það sem er sérstakt við Akureyri var að þetta var svona deildaskipt. Það sem við erum að reyna í nýrri stöð er að brjóta niður deildamúra og reyna að búa til þann kúltúr að þegar það er svigrúm í eitthvað tiltekið starf þá komi starfsfólk og hjálpi öðrum. Ég held að það sé að mörgu leyti skemmtilegri vinnustaður, heldur en þar sem maður er mjög fastur í sama verkefni.“

Á móti komi hins vegar að á Heilsugæslustöðinni á Akureyri sé möguleiki á að vera með meiri sérhæfingu, en það þýði samt að þegar hægt er séu verk ferjuð á milli.

„Við vorum kannski að reyna að brjóta niður múra - og auðvitað þykir okkur leitt ef fólk ákveður að hætta frekar en að taka þá önnur verkefni. Það er talsverð hreyfing á starfsfólki. Ég held að það sé búið að ráða inn þrjá hjúkrunarfræðinga á HAk bara frá því í september. Það er alltaf einhver breyting, fólk færir sig til.“