Fara í efni
Fréttir

Fræ gljávíðis bárust í austanveðri árið 703

Sigurður Arnarson birtir í dag vikulegan pistil um Tré vikunnar á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga og fjallar að þessu sinni um gljávíði. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net vekji athygli á pistlunum með því að birta hluta þeirra.

„Seinni part sumars árið 703 gekk yfir landið mikið austanveður. Bar það með sér töluverðan fjölda af fræjum víðitegundar sem kallast gljávíðir, Salix pentandra. Á þessum tíma voru engir stórir grasbítar á landinu og því var landið svo til algróið. Þess vegna áttu þessi víðifræ ekki mikla möguleika á að lenda á heppilegum stað til að geta spírað og vaxið,“ skrifar Sigurður í upphafi pistilsins.

Aðeins einu fræi tókst það, fræi sem lenti á rökum stað við árbakka þar sem áin hafði vaxið í leysingum um veturinn og myndað heppilegt set fyrir víðifræ. „Þar óx með tímanum upp þessi fíni gljávíðir sem varð einir átta metrar á hæð og gnæfði yfir annan víði á árbakkanum. Þegar hann fór að blómstra kom í ljós að um karlplöntu var að ræða. Má fullyrða að þetta hafi verið mest einmana (eða eintrjáa) tré í allri álfunni, því ekkert annað tré af sömu tegund óx á landinu. Þar sem þessi gljávíðir blómstraði heldur seinna en allur annar víðir á landinu átti hann enga möguleika á að koma erfðaefni sínu til næstu kynslóðar. Reyndar er með öllu óvíst að hann geti myndað blendinga með þeim víðitegundum sem fyrir voru í landinu.“

Smellið hér til að lesa pistil Sigurðar.