Fara í efni
Fréttir

Frábært safn - hægt að gera mikið fyrir lítið

Frábært safn - hægt að gera mikið fyrir lítið

Safnstjóra Iðnaðarsafnsins á Akureyri hefur verið sagt upp störfum vegna fjárskorts eins og greint var frá á Akureyri.net í morgun. Þetta er í sjötta sinn sem það gerist; segja hefur þurft öllum safnstjórum upp vegna peningaleysis, síðan Jón heitinn Arnþórsson, stofnandi safnsins, lét af störfum.

„Það hefur gengið mjög brösuglega að fjármagna safnið undanfarin ár, ekki bara vegna covid, og mér finnst það sárt, því það eru gríðarlega mikil tækifæri í þessu safni,“ sagði Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður stjórnar Iðnaðarsafnsins til tveggja ára, við Akureyri.net. „Þetta er alveg frábært safn og þar er hægt að gera ofboðslega mikið fyrir lítinn pening – en við höfum ekki þann litla pening núna, því miður.“

Sóley leggur áherslu á hve mikilvægt sé að koma sögunni stöðugt áfram til næstu kynslóða. „Í þessu tilfelli ekki eingöngu til þess að fólk átti sig á því hve iðnaðarsaga bæjarins er merkileg heldur ekki síður vegna þess að Iðnaðarsafnið er lifandi dæmi um sjálfbærni, sem er svo mikilvæg vegna umbreytinga í loftslagsmálum. Akureyri var nánast sjálfbær um margt og það sést vel þarna.“

Vinna við safnastefnu Akureyrarbæjar stendur yfir, þar sem á að skilagreina hvaða söfn sé rétt að heyri undir bæinn, segir Sóley. „Ég geri mér vonir um að Iðnaðarsafnið verði þar ofarlega á blaði, vegna þess hve iðnaður hefur verið mikill og mikilvægur í gegnum tíðina og óskandi væri að fyrirtæki í bænum vildu styrkja reksturinn svo hægt væri að halda úti myndarlegu safni.“

Verkalýðsfélögin, með Einingu – Iðju í broddi fylkingar, hafa stutt dyggilega við safnið í gegnum tíðina, að sögn Sóleyjar, Akureyrarbær styrkir safnið með fjárframlögum auk þess að reka húsnæðið og ýmis minni fyrirtæki hafa lagt hönd á plóginn, en það dugar ekki til.

Sóley segist gera ráð fyrir því að bærinn taki safnið yfir einhvern tíma en varla alveg á næstunni, því litir peningar séu til. „Ég er heldur ekki endilega viss um að nú sé rétti tíminn. Hér er enn ákveðin grasrót og hún getur fjármagnað ýmislegt með eldmóði, sem er frábært, en til þess þarf samfélaginu að þykja framlagið merkilegt – sem ég er reyndar handviss um að sé í þessu tilfelli.“

Enn þarf að segja safnstjóra upp