Fara í efni
Fréttir

Safnstjóra enn sagt upp vegna fjárskorts

Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, safnstjóri Iðnaðarsafnsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, safnstjóri Iðnaðarsafnsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Enn einu sinni hefur þurft að segja safnstjóra Iðnaðarsafnsins á Akureyri upp, vegna fjárskorts. Þau hafa orðið örlög allra safnstjóranna eftir að stofnandinn, Jón heitinn Arnþórsson, lét af störfum; Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, sem hefur gegnt starfinu síðan vorið 2019, er sjötta í röðinni. Iðnaðarsafnið er sjálfseignarstofnun, en hefur m.a. notið styrkja frá Akureyrarbæ.

„Safnið hefur verið í basli síðan ég kom hingað fyrst 2015. Ég var þá starfsmaður við skráningar í Sarp, sá síðan um allan almennan rekstur og tók við sem safnstjóri í maí 2019,“ segir Jóna Sigurlaug við Akureyri.net.

Mjög sorglegt

Hún segir mikinn tíma fara að í afla fjár en það dugi ekki til. „Við höfum verið með dygga styrktaraðila í gegnum árin en þeirra framlag er ekki nóg. Hollvinir safnsins hafa líka verið ómetanlegir; þeir hafa borið hitann og þungann af því að standa vaktir þegar ekki hefur verið hægt að hafa launaðan starfsmann á safninu.“

Jóna Sigurlaug er fjölmiðlafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og er með viðbótar diplómu í safnafræði frá Háskóla Íslands.

„Mér finnst þetta auðvitað mjög sorglegt. Það er sífellt mikilvægara að faglært fólk sé starfandi á söfnum og mín þekking, og sú mikla reynsla sem ég fengið á þessum árum hér, tapast nú í rauninni.“

Jóna segir það skipta miklu máli fyrir framboð á menningu og afþreyingu á Akureyri að segja jafn mikilvæga sögu og gert er á Iðnaðarsafninu; sögu sem snerti mjög marga bæjarbúa og án efa þorra eldri Akureyringa í dag, vegna þess hve margir hafa unnið í iðnfyrirtækjum í gegnum tíðina.

Menningararfurinn

Akureyringum þykir augljóslega vænt um safnið, segir hún, en að aðdáunin einskorðist aldeilis ekki við þá eina. „Hér var metaðsókn í júlí, fjölmargir Íslendingar, sem venjulega hefðu farið til útlanda, voru á ferð um landið og mjög margir áttu ekki til orð yfir safnið. Fannst það bara æðislegt! Sögðust sko myndu segja öllum vinum sínum frá safninu og hvetja þá til að koma. Fólk tengir nefnilega við svo marga hluti sem eru hérna; það er gaman að sjá hve margir verða ofboðslega glaðir.“

Akureyri var mikill iðnaðarbær á síðustu öld og safnstjórinn segir að því verði að halda á lofti. „Það sem hér er sýnt er merkilegur hluti menningararfsins og mjög mikilvægt er að koma honum til komandi kynslóða.“