Fara í efni
Fréttir

Fleiri hjúkrunarrými í stað lífsgæðakjarna

Séð yfir nyrsta hluta Holtahverfis þar sem ætlunin er að byggja hjúkrunarheimili. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Grundvallarbreytingar eru í bígerð á áformum um hjúkrunarheimili og lífsgæðakjarna við Þursaholt, nýbyggða hverfið norðan og austan Krossanesbrautar á Akureyri. Hugmyndin er að þar muni rísa hjúkrunarheimili með allt að 100 rýmum í stað 80 sem áður voru áformuð, og að gert verði ráð fyrir möguleika á að það verði stækkað um 40 rými síðar. Þessi áform „gera að engu stórbrotnar hugmyndir um lífsgæðakjarna á sömu slóðum,“ eins og það er orðað í afgreiðslu skipulagsráðs í gær. 

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Holtahverfis er gert ráð fyrir byggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 80 rými á lóð Þursaholts 2, auk uppbyggingar íbúða fyrir 60 ára og eldri á lóð 4-12 með möguleikanum á byggingu þjónustumiðstöðvar í samræmi við hugmyndir um lífsgæðakjarna. Áformin um stærra hjúkrunarheimili gera þess í stað ráð fyrir að afmörkuð verði ný og stærri lóð fyrir hjúkrunarheimilið sem nær til lóðar við Þursaholt 4-12, 14-18 og hluta lóðar nr. 2. Þar með er einnig gert ráð fyrir að afmörkuð verði íbúðarhúsalóð fyrir tvö þriggja hæða fjölbýlishús með indreginni fjórðu hæð á suðvesturhluta lóðar nr. 2.


Vilji skipulagsráðs stendur til þess að hraða undirbúningi fyrir byggingu lífsgæðakjarna við Kjarnagötu, vestan Hagahverfis, á svæðinu sem þarna er merkt rautt. Mynd: Þorgeir Baldursson

Hraða undirbúningi í Hagahverfi

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að ný tillaga að breytingu á skipulagi Holtahverfis sem nær til lóða við Þursaholt verði auglýst, en leggur jafnframt áherslu á að flýta undirbúningi að lífsgæðakjarna við Kjarnagötu, vestan Hagahverfis.

„Skipulagsráð fagnar þessum fyrirætlunum um hjúkrunarheimili við Þursaholt sem gera þó að engu stórbrotnar hugmyndir um lífsgæðakjarna á sömu slóðum. Það er því brýnt að leggja sem allra fyrst undirstöður að uppbyggingu lífsgæðakjarna vestan Hagahverfis og Kjarnagötu,“ segir í bókun skipulagsráðs í gær.

 

Akureyri.net fjallaði ítarlega um lífsgæðkjarna í nóvember á síðasta ári. Hér eru tvær þeirra greina: