Fara í efni
Fréttir

Fimm fjölbýlishús við Glerártorg?

Myndir úr greinargerð sem fylgdi umsókninni. Á efri myndinni sést neðsti hluti Byggðavegar og í fjölbýlishúsin sem hugmynd er um að byggja sunnan við verslunarmiðstöðina Glerártorg. Gatan Klettaborg til vinstri. Á þeirri neðri sést afstaða fyrirhugaðra bygginga gagnvart suðurhlið verslunarmiðstöðvarinnar. Byggingarnar tvær sem næst eru myndu koma í stað þeirra sem nú eru til staðar, þar sem eru verslun Slippfélagsins og dekkjaverkstæði og þvottastöð Hölds.

Eik fasteignafélag stefnir að byggingu fimm fjölbýlishúsa með 120 íbúðum á tveimur lóðum, nr. 6 og 8, við Gleráreyrar, í brekkunni milli bílastæða austan verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs og Byggðavegar. Hugmyndir Eikar ganga út á að skipuleggja blandaða byggð íbúðarhúsa með þjónustu- og verslunarrými á neðstu tveimur hæðum húsanna.

Hugmyndirnar sem kynntar voru á fundi skipulagsráðs nýverið fela í sér breytingu á aðal- og deiliskipulagi svæðisins. Skipulagsráð tók jákvætt í erindið og fól skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við aðalskipulagsbreytingu í samræmi við erindið. Það ferli er þó bara rétt að byrja að sögn Péturs Inga Haraldssonar skipulagsfulltrúa og margt sem tengist þessum áformum sem þarf að skoða og taka afstöðu til. 


Hluti svæðisins sem um ræðir. Lengst til vinstri má sjá þvottastöð og dekkjaverkstæði Hölds. Þær byggingar myndu víkja ef hugmyndir Eikar ganga eftir. Mynd: Snæfríður Ingadóttir.

Akureyri.net fjallaði ítarlega um þessi áform í júlí í fyrra og nú hefur Eik fasteignafélag stigið næsta skref og lagt málið með formlegum hætti inn á borð skipulagsráðs með hugmyndum að breytingum á aðal- og deiliskipulagi svæðisins og skýringarteikningum af svæðinu og fyrirhuguðum byggingum.

Svæðið sem um ræðir hefur um árabil verið skilgreint í aðalskipulagi sem svæði til íbúðabyggðar, frá vesturenda að Gleráreyrum 4 og 2 austast á skipulagssvæðinu, en þar er skilgreint svæði fyrir atvinnustarfsemi. Þar rekur Höldur dekkjaverkstæði og þvottastöð, en þar austan við er verslun Slippfélagsins. Samkvæmt þessum áformum Eikar og þeim tillögum sem lagðar voru fyrir skipulagsráð myndu þær byggingar víkja, en framkvæmdin háð því að samkomulag náist við sveitarfélagið og lóðarhafa. Eik er eigandi Gleráreyra 2, þar sem verslun Slippfélagsins er.


Ein af skýringamyndunum sem fylgdi umsókn um breytingar á skipulagi vegna hugmynda um byggingu fjölbýlishúsa að Gleráreyrum 6-8.  

Í greinargerð með tillögunni, sem unnin er af Kollgátu fyrir Eik fasteignafélag, segir að deiliskipulagsvinnan miði að því að skilgreina svæðið fyrir uppbyggingu blandaðrar byggðar íbúðasvæðis í bland við verslunar- og þjónustusvæði samhliða aðalskipulagsbreytingu þar sem svæðið verði skilgreint sem miðbæjarsvæði.

Á skýringaruppdrættinum má sjá staðsetningu bygginganna samkvæmt hugmyndum með tilliti til verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs og nærliggjandi gatna. 

Um markmið deiliskipulagsins, eins og það er sett fram með breytingum í hugmyndum Eikar segir í greinargerðinni:

„Markmið deiliskipulagsins er að skipuleggja íbúðarbyggð á svæðinu að Gleráreyrum 6 og 8 þannig að þar geti byggst allt að 120 íbúðir í fimm fjölbýlishúsum. Helstu markmið skipulagsins eru þessi:

  • Að endurskilgreina stærð lóðarinnar og skipta henni upp í 5 lóðir. Lóðirnar verða þá Gleráreyrar 2, 4, 6, 8 og 10
  • Að gatan sem heitir Gleráreyrar og nú liggur frá Þórunnarstræti í suð-austri og hlykkjast undir brekkunni til vesturs og norðurs allt þar til hún nær út að Borgarbraut við hringtorgið norðan Glerártorgs verði að stórum hluta tekin inn í lóðarsvæði Gleráreyrar 2-10 annars vegar og hins vegar falli hún inn í lóðarstærð Gleráreyra 1 að við vesturhlið Glerártorgs.
  • Að skipuleggja blandaða byggð íbúðarhúsa með þjónustu- og verslunarrými á neðstu tveimur hæðum húsanna.
  • Að öll lóðarhönnun verði sérstaklega vönduð og gerðar verða kröfur um útlit, efnisval og frágang lóðanna.
  • Gerðar verða kröfur um aðgengi almennings í gegnum lóðirnar á tveimur stöðum með vönduðum og upphituðum stígum, römpum og hæðaraðlögun sem auðveldar aðgengi að og frá Glerártorgi.
  • Endurskipuleggja bílastæði við Glerártorg þannig að umferðarflæði verði bætt frá því sem nú er.
  • Byggingarframkvæmdirnar skulu vera Svansvottaðar.
  • Að allar íbúðir og verslunar- og þjónusturými verði vönduð, þar sem gerðar verða kröfur til innra skipulags íbúða, birtuskilyrði, hljóðvist, aðkomu, geymslur o.fl.
  • Vandaða aðstöðu fyrir sorphirðu skv. nýlegum kröfum Akureyrarbæjar um djúpgáma, endurvinnslu, rafhleðslu bíla og hleðsluaðstöðu fyrir reiðhjól o.fl. sem styður vistvænan lífsstíl.“