Fara í efni
Fréttir

Er það Glerárskóli eða Hogwarts? – MYNDIR

Blandaður hópur nemenda í Glerárskóla á Harry Potter þemadögum. Mynd: RH

Á hverju ári á þessum tíma breytist Glerárskóli í Hogwarts, skóla fyrir galdrakrakka, úr Harry Potter sögunum. Um er að ræða metnaðarfulla þemadaga sem eru haldnir í fimmta skiptið í ár, en það voru þau Sveinn Leó Bogason og Karen Jóhannsdóttir, kennarar á unglingastigi sem áttu hugmyndina fyrir fimm árum síðan og halda utan um skipulagningu. 

„Við erum teymisfélagar í kennslunni, og við komumst fljótlega að þessum sameiginlega áhuga okkar á Harry Potter í þeirri vinnu,“ segir Karen, en hún og Sveinn Leó lásu Harry Potter bækurnar bæði þegar þau voru krakkar og eru bækurnar og myndirnar í miklu uppáhaldi hjá þeim, þannig að það var borðleggjandi að nýta áhugann til þess að skipuleggja þemadaga. Þau hlutu viðurkenningu frá fræðslu- og lýðheilsuráði Akureyrarbæjar í fyrra, einmitt fyrir þessa daga.

 

Sveinn Leó og Karen ásamt Eyrúnu Skúladóttur, skólastjóra Glerárskóla. Starfsfólk er metnaðarfullt í að klæða sig samkvæmt þemadögunum - en Sveinn var reyndar nýbúinn að leggja galdrakarlajakkanum sínum þegar myndin var tekin. Mynd: RH

Nemendum skipt í heimavistir

„Við byrjuðum verkefnið strax með það fyrir augum að þetta yrði árlegt, en það hefur bara vaxið og vaxið með hverju árinu,“ segir Sveinn Leó, en fyrirkomulagið er þannig að dagarnir hefjast á því að krakkarnir í 1. bekk eru flokkuð í heimavistir Hogwartsskóla - Hufflepuff, Gryffindor, Slytherin og Ravenclaw. Þannig eru í rauninni krakkar í 5. bekk í dag, sem eru búin að taka þátt í þessum þemadögum alla sína skólagöngu, og eru alltaf í sömu heimavist.

Heimavistirnar keppa svo sín á milli, í sínum einkennislitum, eins og krakkarnir í Harry Potter bókunum. Allt starfsfólk skólans má gefa stig fyrir allt sem vel er gert á meðan þemadögum stendur, til dæmis fá eldri krakkarnir stig fyrir að hjálpa þeim yngri að klæða sig út í frímínútur, eða fyrir að sýna hjálpsemi og góða umgengni, sem dæmi. „Stundum er næstum of mikil keppni, krakkarnir taka þessu mjög alvarlega og þeim er alls ekki sama! Þú sérð eiginlega sjaldan eins mikla samheldni og samvinnu, eins og á þessum dögum,“ segir Sveinn Leó.  

 

Heimavist Ravenclaw sigraði keppnina í ár, í fyrsta sinn, en mikil gleði var að sigra heimavistarbikarinn. Mynd: Þorsteinn G. Gunnarsson

Ábyrgðarhlutverk elstu nemenda

10. bekkingar skipa veigamikið hlutverk á meðan þemadögum stendur, en þau eru yfirmenn sinna heimavista og sjá um að aðstoða yngri skólasystkin á 15 mismunandi stöðvum víðsvegar um skólann. „Við erum með alls konar í gangi á þessum stöðvum, allt tengt galdraheimi Harry Potter á einhvern hátt. Í textíl eru krakkarnir að sauma trefla í litum heimavistarinnar sinnar, í heimilisfræði er verið að búa til karamellupopp til þess að borða í bíó á einni stöð - þar sem er auðvitað verið að horfa á Harry Potter! Svo föndrum við alls konar og á hverju ári bætist meira skraut og skemmtilegheit í safnið, til þess að skreyta skólann á næsta ári,“ segir Karen að lokum. 

 

Blaðamaður notaði tækifærið og smellti af nokkrum myndum á þemadögunum í ár: