Fara í efni
Fréttir

Einhver stærsta áfallahjálp mannkyns

„Hróp mannfjöldans við krossinn á Golgatahæð þar sem það hæddist að Jesú með orðunum Ef þú ert Guðs sonur þá stígðu niður af krossinum, bjargaðu sjálfum þér hefur orðið mér hugleikið á undanförnum árum,“ sagði séra Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, í prédikun í messu dagsins. „Það að hann steig ekki niður af krossinum er einhver stærsta áfallahjálp sem mannkyni hefur hlotnast í meira en tvö þúsund ár. Krossinn varð þar með vettvangur samfylgdar Guðs og manna í öllum áföllum sem skilja eftir sig naglaför í lófum og hjörtum líkt og þau sem Kristur bar. Jesús breytti krossinum í lífgjöf, breytti honum í tákn trúar og vonar, hugrekkis og styrks,“ sagði Hildur Eir.

Hún sagði ennfremur: 

„Þegar ég sjálf greindist í annað sinn með krabbamein fyrir sléttum tveimur árum einmitt daginn fyrir skírdag og eina sem var ljóst á þeirri stundu var að krabbinn hefði dreift sér og ég þyrfti að bíða fram yfir páska til að vita hvað hægt væri að gera, þá var ég óendanlega þakklát fyrir að Jesús skyldi ekki hafa stigið niður af krossinum. Það er þó ekki í fyrsta sinn sem ég þakka það.“

Smellið hér til að lesa prédikun Hildar Eirar