Fara í efni
Fréttir

BSO gert að fara af lóðinni næsta vor

Bifreiðastöð Oddeyrar. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Leigubílstjórarar á Akureyri hafa verið með aðstöðu í miðbænum í áratugi en verða að víkja fyrir 1. apríl á næsta ári vegna breytinga á deiliskipulagi miðbæjarins. Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun á fundi í vikunni.

Bifreiðastöð Oddeyrar, BSO, var stofnuð 1953 og hefur allar götur síðan starfað á sama stað við Strandgötu.

Mannvirki leigubifreiðastöðvarinnar hefur verið á bráðabirgðastöðuleyfi með sex mánaða uppsagnarfresti frá árinu 1955, að því er segir í fundargerð bæjarráðs. Þar kemur fram að enginn leigusamningur liggi fyrir.

„Við viljum alls ekki fara. Við erum á stað sem er búinn að sýna það og sanna síðastliðin 65 ár, sem þetta hús er búið að vera, að það hafi menningarlegt gildi fyrir marga Akureyringa sem koma hingað daglega. Eins er það mikilvægt fyrir næturlífið,“ er haft eftir Margréti Elísabetu Imsland Andrésardóttur, framkvæmdastjóra BSO,  í Morgunblaðinu í vikunni.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir í samtali við Morgunblaðið að málið hafi verið langan tíma í ferli en vonir standi til að húsnæði finnist í miðbænum þar sem BSO geti haldið áfram rekstri sjoppu og leigubílaþjónustunnar. Hann segir húsið vissulega eiga langa sögu en nýja deiliskipulagið geri ekki ráð fyrir því og þetta sé því lokaniðurstaða málsins. Einhugur var um málið innan bæjarráðs, að sögn Guðmundar.