Fara í efni
Fréttir

Brynjólfur í leyfi af heilsufarsástæðum

Brynjólfur Ingvarsson er kominn í tímabundið leyfi frá bæjarstjórn og sem áheyrnarfulltrúi í bæjarráði til 15. apríl 2024 og kemur Jón Hjaltason í hans stað.

Brynjólfur Ingvarsson, fyrrum bæjarfulltrúi Flokks fólksins, nú óflokksbundinn, er kominn í tímabundið leyfi frá bæjarstjórn og sem áheyrnarfulltrúi í bæjarráði til 15. apríl 2024 af heilsufarsástæðum. Brynjólfur lýsti því sjálfur á bæjarstjórnafundi í gær að honum hafi verið ráðlagt að draga úr álagi vegna langvarandi veikinda.

Bæjarstjórn samþykkti beiðni Brynjólfs með 11 samhljóða atkvæðum. Jafnframt að Jón Hjaltason tæki sæti hans í bæjarstjórn og sem áheyrnarfulltrúi í bæjarráði og Halla Birgisdóttir Ottesen yrði varaáheyrnarfulltrúi í stað Jóns.

Heldur áfram í öldungaráði

Brynjólfur óskaði þess hins vegar að halda áfram sem fulltrúi í öldungaráði og lýsti því á bæjarstjórnarfundinum að ástæða þess væri að þar væru komin á rekspöl mjög þýðingarmikil mál sem hann væri ánægður með og væri kappsmál hjá sér að fylgjast sem allra best með því sem gerist næst og vera með í þeim verkefnum.

Einhver vafi virðist hafa leikið á því eða mismunandi sjónarmið um það hvort leyfilegt væri að fara í leyfi frá störfum í bæjarstjórn og bæjarráði en halda áfram setu í öldungaráði. Í því sambandi vísaði Brynjólfur til lögfræðiálits og til 2. málsgreinar 30. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 28. september 2011 þar sem segir:

Telji sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags, svo sem vegna veikinda eða annarrar vinnu, getur sveitarstjórn létt af honum störfum eða veitt honum lausn úr sveitarstjórn, að hans ósk, um tiltekinn fyrir fram ákveðinn tíma eða til loka kjörtímabils.