Fara í efni
Fréttir

Birna stórslösuð: Skammast mín fyrir fáránlega ákvörðun

Birna Baldursdóttir, framhaldsskólakennari og kunn íþróttakempa, slasaðist mjög illa þegar hún datt á rafhjólahlaupahjóli á dögunum. Birna höfuðkúpubrotnaði auk þess sem kinnbein og kjálki brotnuðu. Þá fékk hún flogakast á gjörgæslu vegna heilablæðingar en segir lækna hafa bjargað lífi sínu.

Birna skrifaði um slysið á Facebook síðu sína í dag og gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta þá grein. Slysið varð aðfararnótt sunnudagsins 6. águst, Birna var undir áhrifum áfengis, segist skammast sín mikið og ekki skilja hvers vegna hún tók þá fáránlega ákvörðun að leigja sér hjól.

Færsla Birnu á Facebook er svohljóðandi:

„Elsku yndislegu ættingjar og vinir.

Ég vil byrja à því að þakka ykkur fyrir allar kveðjurnar, hringingarnar, knúsin, gjafirnar & dekrin síðustu daga eftir slysið sem ég lenti í á laugardagsnóttina þann 6. ágúst síðastliðinn.

Ég man auðvitað ekkert eftir byrjuninni á atburðarásinni en eins og þið hafið hugsanlega heyrt þá tók ég þá fáránlegu ákvörðun og leigði hopphjól ein á heimleið úr partýi þrátt fyrir að vera í glasi.

Það versta sem gerist er að ég finnst rotuð og meðvitundarlaus á gagnstétt eftir að hafa dottið. Það er bláókunnugt, yndislegt fólk sem kallar eftir hjálp. Ég fer með sjúkrabíl strax á SAK og fæ þar því miður flogakast á gjörgæslu vegna heilablæðingar en læknarnir bjarga lífi mínu enda kom í ljós að ég var höfuðkúpubrotin, kinnbeinsbrotin og kjálkabrotin.

Ég finn ennþá stinginn í hjartanu sem ég fékk þegar læknirinn er að tilkynna mér þessi meiðsli dagana á eftir þegar ég vakna af og til en ég hélt í alvörunni að hann væri að grínast í hvert skipti.

Næstu daga ligg ég því á gjörgæslu með foreldra mína og strákana hjá mér, ásamt nokkrum vinkonum í algjöri losti, vanlíðan og áhyggjum en þau stóðu sig frábærlega ásamt þeim læknum, hjúkrunafræðingum og sjúkraliðum sem dekruðu við mig í einu og öllu og reyndu hvað þau gátu til að láta mér líða betur.

Ég er svo þakklát fyrir ykkur öll og allt starfsfólkið á SAK sem ég á líf mitt að launa og mun svo sannarlega læra af þessum asnaskap.

Ég skammast mín auðvitað svakalega mikið enda framhaldskólakennari, íþróttakona, móðir, dóttir og vinkona sem ætti að vita betur sem ákveðin fyrirmynd. En þessi fortíðarákvörðun er búin og þótt ég skilji satt og segja ekki ennþá afhverju ég tók hopphjólið þá vona ég svo sannarlega að ENGINN geri slíkt hið sama þar sem ég mun aldrei gera það aftur.

Mottóið mitt hefur alltaf verið að LIFA LÍFINU LIFANDI og vera góð við fólkið í kringum mig, sem ég ætla ennþá að gera og í dag er ég útskrifuð og er komin heim og er mun betri. Það er samt auðvitað langt í land og þetta verður smá verkefni en ég ætla að reyna að vera dugleg að hlusta a líkamann og hlýða mínum læknum og elskulegri móður minni sem er búin að vera stoð mín og stytta í gegnum þetta allt saman Ég verð í fríi frá vinnu eins og er en kem vonandi sterk til baka um leið og batinn verður betri.

Ást & friður á ykkur öll og sjúklega mikið

LOVE YOU á starfsfólk SAK, lögreglu, sjúkraflutningarmennina og auðvitað þau sem fundu mig hvar sem þið eruð.“

Alvarlegt slys á rafhjólahlaupi