Bið á mestu álagstímum en alltaf bílar í bænum

Þegar stór skemmtiferðaskip eru í höfn eru leigubílar á Akureyri umsetnir ferðamönnum sem vilja fara í einkaferðir út fyrir bæinn. Framkvæmdastjóri BSO segir að leigubílastöðin passi þó upp á að það séu alltaf einhverjir bílar eftir í bænum sem sinni innanbæjarakstri.
„Við erum alltaf með að minnsta kosti fjóra bíla í bænum. Við missum þá aldrei alla úr bænum,“ segir Baldur Örn Jóhannesson, framkvæmdastjóri BSO, aðspurður um stöðuna á leigubílastöðinni á stórum skipadögum. Baldur játar að það geti komið fyrir að biðin eftir bíl sé ögn lengri á þessum stóru dögum en ítrekar að leigubílastöðin nái yfirleitt vel að sinna bæði íbúum og gestum. „Við erum vanalega að ná að senda bíla bara nokkurn veginn strax þegar fólk hringir. Það er helst á þessum helstu álagstímum, þegar skip eru í höfn eða í kringum hádegið þegar við erum að þjónusta Akureyrarbæ, þá getum við lent í því að vera bíllausir í 20 mínútur eða svo,“ segir Baldur og bætir við að upplifun fólks af því hvað sé löng bið sé líka mismunandi. „Fólk frá Reykjavík segir stundum: „Guð, það er ekkert!“ þegar við segjum að biðtíminn geti orðið 20 mínútur.“
Húsnæði BSO við Hofsbót. Mynd: Þorgeir Baldursson
Neyðartilfelli ganga fyrir
Hann ítrekar að þó að leigubílastöðin sinni ferðum út úr bænum með ferðafólk þurfi heimafólk ekki að hafa áhyggjur af því að það geti ekki fengið bíl í neyðartilfellum. Sjúkrahúsferðir eru t.d. alltaf í forgangi, sama hver biðin er hjá öðrum. Þá segir hann að BSO geti gripið til sérstakra úrræða til að mæta álagi, eins og t.d var gert í kringum nýafstaðin fótboltamót í bænum, en þá voru jafnframt stórir skipadagar. „Þá fengum við til dæmis fyrrum bílstjóra til að keyra út hádegismatinn til aldraðra, svo aðrir bílstjórar gætu sinnt farþegum í bænum. Þetta sparaði okkur nokkra klukkutíma vinnu.“
Við erum vanalega að ná að senda bíla bara nokkurn veginn strax þegar fólk hringir. Það er helst á þessum helstu álagstímum, þegar skip eru í höfn eða í kringum hádegið þegar við erum að þjónusta Akureyrarbæ, þá getum við lent í því að vera bíllausir í 20 mínútur eða svo.
Að sögn Baldurs, framkvæmdastjóra BSO eru alltaf minnst fjórir bílar að keyra í bænum, líka á stórum skipadögum þegar leigubílarnir eru eftirsóttir í lengri ferðir með ferðamenn. Mynd: SNÆ
14 bílar á stöðinni
BSO hefur í dag fjórtán bíla með virkt rekstrarleyfi. „Við viljum vera með sextán fasta bíla og geta svo farið upp í átján, jafnvel nítján yfir sumarið þegar álagið er hvað mest,“ segir Baldur. Hann segir mikilvægt að fjöldi bíla á stöðinni sé í takt við verkefnin sem séu í boði á svæðinu og að bílstjórar sem á stöðinni starfi geti verið þar í dagvinnu en ekki eingöngu á næturvöktum um helgar. Segir hann að á síðustu misserum hafi nokkrir bílstjórar horfið frá, meðal annars vegna aldurs, en aðrir hafi fyllt í skarðið. „ Einn flutti norður úr höfuðborginni sérstaklega til að keyra hjá okkur, eftir tíu ár í bransanum í Reykjavík. Hann vildi gjarnan koma norður þar sem þar sem hann sagði það væri orðið ólíft í bransanum fyrir sunnan.“
Talið berst að fjölmiðlaumræðu undanfarið um leigubílamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu og við Leifsstöð, sérstaklega í tengslum við nýja aðila á markaðnum og aukna samkeppni, en Baldur segir slíkt ekki eiga við á Akureyri. Það séu vissulega fleiri leigubílar í boði á Akureyri en aðeins hjá BSO en leigubílstjórar í bænum séu hvorki að svindla á fólki né ryðjast fram fyrir aðra, það sé sátt og samlyndi á milli allra. „Það er ekkert villta vestrið hér,“ segir Baldur að lokum.