Fara í efni
Fréttir

Börn leigðu rafskútur, eitt lenti í stórhættu

Litlu munaði að stórslys yrði á Akureyri í gær þegar barn á rafmagnshlaupahjóli var nærri orðið fyrir bíl. Lögregla segir fólk sem varð vitni að atvikinu í áfalli.

Leiga á slíkum farartækjum – rafskútum – hófst í bænum í gær, á vegum fyrirtækisins Hopp. Greitt er með appi í síma, yngri en 18 ára mega ekki taka hjólin á leigu, en töluvert virðist hafa verið um mun yngri ökumenn á ferðinni í gær skv. heimildum. Ekki er óalgengt að sjá börn á farartækjum sem þessum en reglur Hopp um aldursmörk eru skýrar.

Lögreglan ræðir málið á Facebook síðu embættisins. Tilkynning hafi borist um að barn hefði verið á rafskútu hjólaleigunnar Hopp „sem var að opna leigu hér á Akureyri. Alla jafna telst það ekki til tíðinda að barn sé að hjóla á rafskútu. Eins er opnun þessarar leigu hér á Akureyri bara hið besta mál, fari leigutakar að reglum fyrirtækisins. Skv. reglum Hopp þurfa leigutakar að vera 18 ára og eldri til að mega leigja hjól. Viðkomandi barn var um 10 ára gamalt. Það sem gerðist var að barnið gat ekki valdið hjólinu að fullu vegna stærðar og þyngdar og við gangbraut eina hér í bæ, gerðist það að hjólið fór af stað og togaði barnið út á götuna og hársbreidd munaði að bifreið yrði ekið á barnið og þeirri bifreið var ekið á umferðarhraða, 50 km mv. klukkustund.“

Lögreglan segir ennfremur: „Vegfarendur sem þetta sáu var mikið niðri fyrir vegna þessa atviks og í áfalli. Það þarf ekki að fjölyrða um hvað hefði getað gerst ef illa hefði farið. Þvi viljum við beina þeim vinsamlegu tilmælum til foreldra að ræða þetta við börn sín, brýna fyrir þeim að þau megi ekki leigja þessi hjól og eins að gæta ávallt varúðar við hjólreiðar, nota alltaf reiðhjólahjálma.“

Smellið hér til að lesa frétt gærdagsins rafskúturnar