Fara í efni
Fréttir

65 rafskútur komnar í umferð á Akureyri

Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp, Axel Jensen, sérleyfishafi á Akureyri, Ásthildur Stur…
Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp, Axel Jensen, sérleyfishafi á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Þorgrímur Kári Emilsson, sölustjóri Hopp. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Leiga á rafhlaupahjólum – rafskútum – hófst í dag á Akureyri. Fyrirtækið Hopp í Reykjavík hefur leigt slík farartæki síðustu misseri en það er Axel Jensen sem rekur leiguna fyrir norðan sem sérleyfishafi. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, fékk að prófa fyrst allra; fór nokkra hringi við Ráðhús bæjarins í hádeginu, og hafði bersýnilega mjög gaman af! 

Rafskúturnar ná allt að 25 kílómetra hraða. Axel verður með 65 slíkar til leigu, hjólin verða ekki geymd við sérstakar stöðvar heldur dreifðar hér og þar um bæinn.

„Fyrir þá sem ekki vita er Hopp alíslenskt fyrirtæki sem býður upp á þjónustu þar sem hægt er að leigja rafskútur innan ákveðins þjónustusvæðis. Notendur aflæsa rafskútunum með appi og geta síðan keyrt um á þeim gegn vægu gjaldi. Þegar ferðinni er lokið er hægt að leggja rafskútinni hvar sem er innan þjónustusvæðisins,“ segir í tilkynningu frá Hopp.

„Líkt og í Reykjavík mun Hopp á Akureyri sjá til þess að þjónustan gagnist heimamönnum fyrst og fremst. Markmiðið er að bjóða einstaklingum upp á umhverfisvænan, ódýran og handhægan ferðamáta til þess að komast leiðar sinnar á svæðinu. Það mun kosta 100 kr. að aflæsa rafskútunum og svo 30 kr. hver mínúta í leigu þar á eftir.“

Tekið er sem dæmi að sex mínútna ferð úr Lundarhverfi og niður í miðbæ kosti 250 krónur. Þess er getið að allir sem sækja sér Hopp appið á Akureyri til mánudags fá tvær ókeypis ferðir –  alls 15 mínútur.