Fara í efni
Fréttir

Bærinn leggi fram 7,5 milljónir ella verði Iðnaðarsafninu lokað

Stjórn Iðnaðarsafnsins á Akureyri segist munu loka safninu í síðasta lagi 1. mars næstkomandi komi ekki til fjárframlags frá Akureyrarbæ, að lágmarki 7,5 milljónir króna, vegna rekstrar safnsins á þessu ári.

Í harðorðu bréfi sem stjórn safnsins hefur sent öllum bæjarfulltrúum á Akureyri segir að Hollvinasamtök safnsins muni þá einnig hætta starfsemi, safngripum í eigu annarra sem varðveittir eru á safninu verði skilað og „lyklavöld og safnið í heild sinni verður afhent Minjasafninu á Akureyri eins og segir í stofnskrá Iðnaðarsafnsins dags. 15. janúar 2004.“

Bæjarfulltrúar „farið undan í flæmingi“

Í bréfinu segir að skilningur stjórnarinnar, þegar safnastefna Akureyrarbæjar hafi verið lesin, að Iðnaðarsafnið fengi á árinu 7,5 milljónir til reksturs. Það dekki reyndar ekki allan kostnað „en það er þó eitthvað sem við safnamenn ætluðum að vinna með og leggja þá í þá vinnu að afla þess fjármagns er uppá vantar til að halda úti starfinu óbreyttu og þá samhliða væntanlegum viðræðum við Minjasafnið og eða sögusafn er nefnt er um fýsileika á sameiningu.“

Síðan segir: „Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá Akureyrarbæ er þetta framlag bæjarins er nefnt er í safnastefnunni þ.e 7,5 milljónir ekki að koma til rekstrar safnsins og það skal segja eins og er að það er ekki góð stjórnsýsla af hendi bæjarins að við höfum þurft ítrekað að kalla eftir svari frá bænum m.a með samtölum við bæjarfulltrúa um hvort staðið verði við það sem í safnastefninu stendur varðandi þetta fjármagn til safnsins eða ekki. Bæjarfulltrúar hafa farið undan í flæmingi og vísað á hvern annan.“

Safnið 25 ára í sumar

Á Facebook síðu Iðnaðarsafnsins sagði í gær að umrætt bréf hafi verið sent bæjarfulltrúm 16. janúar en viðbrögð hefðu enn engin verið. „Segir það kannski að áhugi þeirra ágætu manna og kvenna er bæjarstjórn Akureyrar skipa, sé ekki mikill á sögu iðnaðarins hér í bæ sem safnið hefur verndað og segir í sýningarsölum safnsins á Krókeyri.“

Í færslunni er athygli vakin á því að „fyrir kosningar í vor komu allir þessir bæjarfulltrúar hingað til okkar á safnið og voru allir sammála um að safnið segði svo merkilega sögu sem bæri að varðveita og færa fram til komandi kynslóða. Þau orð eru ekki mikils virði í dag.“

Í bréfinu er rifjað upp að 17. júní í sumar „verða 25 ár síðan frumkvöðullinn Jón Arnþórsson heitinn opnaði í fyrsta skipti Iðnaðarsafnið á Akureyri fyrir gesti. Stofnun safnsins á sínum tíma var gríðarlegt þrekvirki og það verður aldrei þakkað til fulls að Jón skyldi hafa þessa sýn á mikilvægi þess að iðnaðarsaga Akureyrar svo merkleg sem hún er skyldi verða varðveitt.“

BRÉFIÐ Í HEILD

Bæjarfulltrúi bæjarstjórnar Akureyrar.

Þann 17. júní n.k. verða liðin 25 ár síðan frumkvöðullinn Jón Arnþórsson heitinn opnaði í fyrsta skipti Iðnaðarsafnið á Akureyri fyrir gesti.

Stofnun safnsins á sínum tíma var gríðarlegt þrekvirki og það verður aldrei þakkað til fulls að Jón skyldi hafa þessa sýn á mikilvægi þess að iðnaðarsaga Akureyrar svo merkleg sem hún er skyldi verða varðveitt.

Í upphafi var megináhersla lögð á að varðveita muni og minjar frá sambandsverksmiðjunum á Gleráreyrum, og sannarlega er saga SÍS verksmiðjanna á Akureyri hryggstykkið í upphafssöfnun Iðnaðarsafnsins.

Sú björgun verðmæta í sögu og samtölum starfsmanna SÍS hefur í öll þessi ár verið sýnileg í Iðnaðarasafninu sem og á hverju ári er bætt við þá sögu, með m.a viðtölum við fyrrum starfsfólk verksmiðjanna, sem og munum sem eru að berast safninu sem tengjast þessari merkilegu sögu SÍS á Akureyri.

Jafnfram þessu hefur Iðnaðarsaga Akureyrar í heild sinni verið fönguð lið fyrir lið og þar er ekki í kot vísað, því það vita allir sem komnir eru til vits og ára að saga þess gríðarlega öfluga iðnaðar hér á Akureyri er lykillinn að þeirri Akureyri sem hún er í dag.

Þess vegna er Iðnaðarsafnið á Akureyri svo merkilegt og dýrmætt sem raun ber vitni og er eina Iðnaðarsafnið sem rekið er hér á Íslandi, og þau ár sem liðin eru frá upphafinu hafa verið á hverju ári viðbót við þessa sögu, enda er iðnaðarsagan á Akureyri lifandi og verður svo áfram.

Hér á Akureyri voru algjör brautryðjenda iðnfyrirtæki á mörgum sviðum. Fyrr eru nefndar sambandsverksmiðjurnar og það má geta þess að á sjöunda áratug síðustu aldar þegar rekstur SÍS verksmiðjanna var í hvað mestum blóma störfuðu þar á sama tíma yfir 1000 manns. Þá voru íbúar Akureyrar undir 10.000. Húsgagnaiðnaður var hér mjög blómlegur og mörg fyrirtæki sem framleiddu hér hágæða húsgögn sem seld voru um allt land. Skipasmíðar voru alla síðustu öld mjög blómlegar á Akureyri og mörg fyrirtæki sem hér störfuðu m.a á Oddeyrinni voru stórtæk í smíði fiskiskipa, stærri sem smærri. Sú saga er og hefur verið krufin og er til í Iðnaðarsafninu.

Kaupfélag Eyfirðinga var og hét í rúm 100 ár algjör burðarstoð í atvinnu og iðnaðarlífi hér í bæ og mikið af sögu KEA veldisins teygði anga sína um allt bæjarlífið og sú saga er einmitt varðveitt á Iðnaðarsafninu á Akureyri.

Önnur matvælafraleiðsla var blómleg hér einnig og merkileg.

Saga útgerðar er einnig mikil og merkileg í sögu bæjarins, og þar eins og í mörgu öðru var Akureyri höfuðvígi stórra sem smærri vel rekinna útgerða og er enn, og þá sögu er hægt að rekja á safninu okkar.

Ótalin eru hér tugur ef ekki talið í hundruðum litlu fyrirtækin í hinum ýmsa iðnaði sem sannarlega skiptu máli og mörkuðu sporin í sögu Akureyrar.

Lengi mætti hér áfram telja en saga iðnaðar er svo sannmerkt sögu og uppbyggingu, vexti, já og þróun Akureyrar að um það verður ekki deilt. Því er það svo dýrmætt að eiga Iðnaðarsafnið á Akureyri með þessa miklu sögu sem segir úr hverju við Akureyringar erum gerð og úr hvaða umhverfi þessi blómlegi bær okkar er sprottinn.

Iðnaðarsafnið hefur notið velvilja margra aðila alla sína tíð og á það við um fyrirtæki, stofnanir, verkalýðsfélög, einstaklinga sem og Akureyrarbæjar. Þann stuðning ber að þakka og það teljum við að Iðnaðarsafnið sé að gera vel með þessari gagnasöfnum og varðveislu er að ofan greinir.

Einn þáttur í rekstri Iðnaðarsafnsins sem þó hefur verið algjörlega ómetanlegur alla tíð, en það er aðkoma Hollvinafélags Iðnaðarsafnsins, en það félag samanstendur af sjálfboðaliðum sem hafa lagt safninu til ómetnalegt vinnuframlag, og hægt er að umreikna það framlag í milljónir króna sem ekki er bara til stuðnings safninu heldur líka þessari sögu Akureyrar er Iðnaðarsafnið er að segja.

Sjálfboðaliðar úr hollvinum safnsins hafa m.a haldið safninu opnu allar helgar eins lengi og safnið hefur starfað, auk þess að alla daga hafa þessi dýrgripir safnsins verið vakandi og sofandi yfir velferð þess með ómetanlegu vinnuframlagi í ýmsu formi, skráningum muna, ljósmyndum, uppsetningum safnsgripa þrifum málningu og öllu því er til fellur til að safnið haldi þeim virðulega sess er raun ber vitni. Ónefnt er sú gríðarlega þekking sem þessir hollvinir hafa á sögu iðnaðar og fyrirtækjanna hér í bæ og segja þeir hana gestum og gangandi er heimsækja safnið á hverju ári.

Iðnaðarsafnið er viðurkennt safn og til þess að hljóta þann sess þarf allt að vera í lagi er Safnaráð svokallað kallar eftir. Að vera viðurkennt safn er staðfesting á faglegu starfi safnsins og enn og aftur er ljúft að nefna hollvini safnsins sem staðið hafa daginn langann við allt er þarf til að safnið haldi þeirri virðingu og sess er raun ber vitni.

Til að reka Iðnaðarsafnið þarf að vera starfsfólk sem ber meginábyrgð á daglegum rekstri safnsins og ætla má að það þurfi um það bil 1,2 til 1,5 stöðugildi svo hægt sé að halda safninu opnu á ársgrundvelli sem hefur verið alla tíð frá upphafi. Það er líka alveg ljóst að safnastarf er miklu meira en bara opnunartími safnsins og öll sú vinna sem unninn er utan opnunatíma safnanna er svolítið hulin þeim er ekki þekkja til. Skráning og móttaka safnmuna, viðtöl við gamla iðnaðarmenn og frágangur þeirra samtala, þrif á safninu og nærumhverfi þess inni og úti, viðhald, viðgerðir safnamuna, upplýsingamiðlun á þar til gerða miðla og lengi mætti áfram telja er einmitt þessi huldi hluti sem sannarlega vinna þarf og þótt hollvinir safnsins hafi verið ómetanlegir að hjálpa til við margt að þessu verður aldrei svo að ekki verði nauðsynlegt að hafa launaða starfsmenn sem bera megin ábyrgð á þessum hlutum.

Samkvæmt nýrri safnastefnu Akureyrarbæjar sem samþykkt var s.l vetur er safnastefna Akureyrarbæjar mörkum til framtíðar. Þar eins og gefur að skilja er Iðnaðarsafnið talið upp sem eitt af 12 söfnum sem starfandi eru í bænum eða voru þegar safnastefnan var í vinnslu. Þar segir að hlúa þurfi að söfnunum og tryggja rekstrargrundvöll þeirra með auknu framlagi. Þar segir einnig að kannaðir verði fýsileiki á samvinnu og eða sameiningu safna og er það vel. Samvinna er nokkuð mikil m.a. milli Minjasafnsins og Iðnaðarsafnsins, en einmitt er það rætt í safnastefnu Akureyrarbæjar að skoða beri möguleika á sameiningu þessara safna og eða einnig er nefnt „sögu og minjasafn“ hvað svo sem átt er með því.

Umræða um sameiningu safnanna hefur bara ekki farið fram formlega en í samtölum aðila hefur það borið á góma í viðræðum safnastarfsfólks sem og stjórnum safnana, óformlega þó. Í þeim viðræðum hefur ekki komið fram neinn vilji Minjasafnsins til yfirtöku og eða sameiningar við Iðnaðarasafnið og ekki í sjónmáli að það breytist nema til komi töluvert fjármagn utanfrá. En sannarlega hafa þessar viðræður ekki verið formlegar.

Hins vegar var það skilningur okkar þegar við lásum safnastefnu Akureyrarbæjar að Iðnaðarsafnið fengi á árinu 2023 kr 7,5 milljónir til reksturs safnsins sem sannarlega dekka þó ekki kostnað við það stöðugildi er þarf og að ofan er nefnt, en það er þó eitthvað sem við safnamenn ætluðum að vinna með og leggja þá í þá vinnu að afla þess fjármagns er uppá vantar til að halda úti starfinu óbreyttu og þá samhliða væntanlegum viðræðum við Minjasafnið og eða sögusafn er nefnt er um fýsileika á sameiningu.

Sú vinna tekur væntanlega einhvern tíma og við spyrjum, hver á að leiða þá vinnu, við safnamenn þessara safna,? og eða sá er biður um þessa vinnu þ.e Akureyrarbær?

Á liðnum árum hefur það komið fyrir að Akureyrabær hefur lagt til safninu fjármagn til starfsmannahalds gagngert til að bjarga þvi að safninu verði ekki lokað, þetta ber að þakka, en einmitt í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í fyrra kom það fram í máli margra frambjóðenda sem komu í heimsókn á safnið í samtölum við okkur safnamenn að það þyrfti í eitt skipti fyrir öll að tryggja rekstrargrundvöll safnsins til framtíðar og hætta þessu slökkvistarfi sem verið hefur á undanförnum árum. Það einmitt stendur í formála að safnastefnunni, að hlúa beri að þeim söfnum sem fyrir eru og tryggja rekstrargrundvöll þeirra. Hvað hefur breyst síðan fyrir kosningar?

Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá Akureyrarbæ er þetta framlag bæjarins er nefnt er í safnastefnunni þ.e 7.5 milljónir ekki að koma til rekstrar safnsins og það skal segja eins og er að það er ekki góð stjórnsýsla af hendi bæjarins að við höfum þurft ítrekað að kalla eftir svari frá bænum m.a með samtölum við bæjarfulltrúa um hvort staðið verði við það sem í safnastefninu stendur varðandi þetta fjármagn til safnsins eða ekki. Bæjarfulltrúar hafa farið undan í flæmingi og vísað á hvern annan.

Á fundi bæjarráð Akureyrar er fulltrúar Iðnaðarsafnsins voru boðaðir á fimmtudaginn 7. janúar s.l. s.l kom það eitt í ljós að svör frá bænum voru og eru engin, önnur en þau að ræða á sameiningu safnanna. Hver á að boða til þeirra og hvenær?

Að lokum.

Til að draga þetta saman í stutta samantekt þá er það ljóst og tilkynnist bæjaryfirvöldum Akureyrarbæjar það hér með bréfi þessu og nú, að ef ekki kemur til fjárframlags Akureyrarbæjar vegna reksturs Iðnaðarsafnsins á árinu 2023 að lágmarki kr 7.5 milljónir mun safnið loka í síðasta lagi 1. mars n.k.

Verði það niðurstaðan er það einu orði sagt ömurleg afmælisgjöf bæjarstjórnar Akureyrar 2022-2026 til Iðnaðarsögu bæjarins og allra þeirra er unna sögu Iðnarbæjarins Akureyri.

Akureyri 16. janúar 2023.

Stjórn Iðnaðarsafnsins á Akureyri.

Þetta bréf er sent öllum 11 bæjarfulltrúum bæjarstjórnar Akureyrar.

Afrit af þessu bréfi er sent stjórn Físos, félagi íslenskra safna og safnamanna.