Fara í efni
Fréttir

Reisa lúxushótel á höfða Þengils mjögsiglandi

Hótelið verður á Þengilhöfða, steinsnar sunnan við Grenivíkurþorp.

„Staðsetning hótelsins verður einstök. Við teljum þennan stað bera af í Eyjafirði og viljum meina að þetta verði flottasta hótel landsins,“ segir Björgvin Björgvinsson athafnamaður og skíðakappi við Akureyri.net en þeir viðskiptafélagar, Björgvin og Jóhann Haukur Hafstein, tilkynntu í vikunni að þeir hyggist opna lúxushótel á Þengilhöfða við Grenivík eftir liðlega tvö ár.

Hótelið, sem kallað verður Höfði Lodge, mun rísa fyrir ofan 50 metra háan klettavegg þaðan sem útsýnið verður stórbrotið, eins og Björgvin orðar það, „óhindrað útsýni til mynnis Eyjafjarðar og yfir á Tröllaskagann.“ Stefnt er að því að starfsemi hefjist á hótelinu í árslok 2022.

Byggingin verður 5500 fermetrar og herbergin alls 40, þar af fjórar svítur. Á hótelinu verður veitingastaður, heilsurækt og bar auk funda- og ráðstefnusalar. Erlendur fjárfestir er í samstarfi við þá félaga en Björgvin segir ekki tímabært að greina frá því hver hann er. Þeir hafa unnið að hugmyndinni í sex ár.

Lykilatriði að vera stutt frá flugvelli

Björgvin og Jóhann Haukur eiga fyrirtækið Viking Heliskiing sem sérhæfir sig í fjallaskíðamennsku. „Fyrstu árin vorum við aðallega á Ólafsfirði, svo á Siglufirði en höfum upp á síðkastið farið með skíðamenn um allan Tröllaskaga,“ segir Björgvin. Þeir hafa flutt skíðamenn með þyrlum upp á fjallatoppa og svo verður áfram, auk þess sem ýmiskonar afþreying önnur en skíðamennska verður í boði fyrir gesti Höfði Lodge.

Aðeins verður um 25 mínútna akstur frá Akureyrarflugvelli að hótelinu. Björgvin segir lykilatriði að ekki sé langt frá flugvelli að áfangastað. Þeir gera ráð fyrir að flestir gesta verði erlendir ferðamenn en að íslenskt skíða- og útivistarfólk verði einnig spennt fyrir þessum nýja möguleika. „Við höfum mikla trú á ferðaþjónustunni hér á landi. Sumir tala um að túrisminn á síðustu árum hafi verið einhvers konar bóla, en við erum þess fullvissir að þetta sé rétt að byrja.“

Björgvin telur miklu skipta að uppbygging sé framundan á Akureyrarflugvelli. „Sumir af viðskiptavinum okkar koma á eigin flugvélum til landsins en reglulegt millilandaflug til Akureyrar mun skipta okkur miklu máli.“ Hann segir framkvæmdir á flugvellinum hvetja þá Jóhann Hauk til dáða.

Þengilhöfði, þar sem hótelið verður, rís hæst 260 metra upp fyrir sjávarmál, suður af Grenivíkurþorpi. Fjallið er nefnt eftir Þengli landnámsmanni. Í Landnámu segir frá því, að Þengill mjögsiglandi hafi farið frá Hálogalandi til Íslands. Hann nam land „út frá Hnjóská til Grenivíkur; hann bjó í Höfða,“ segir í Landnámu.