Fara í efni
Fréttir

Arnar Gunnarsson fannst látinn

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefur staðfest að lík sem fannst 2. apríl í fjöruborðinu við Fitjabraut í Reykjanesbæ er af Arnari Gunnarssyni sem leitað hefur verið að síðan 3. mars síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í dag. Tekið er fram að ekki sé talið að andlát Arnars hafi borið að með saknæmum hætti.

Arnar er Akureyringur en var búsettur á höfuðborgarsvæðinu, handknattleiksþjálfari og kennari. Jón Óðinn Waage skrifaði mjög hjartnæman pistil um Arnar vin sinn á Akureyri.net fyrir skömmu. Pistilinn, Elsku vinur minn, Arnar, má sjá hér

Arnar var 44 ára þegar hann lést. Hann ólst upp á Akureyri og hóf ungur að æfa og leika handknattleik. Snemma tók hann til við þjálfun sem varð upp frá því hans annað starf og eitt helsta áhugamál.

Arnar þjálfaði m.a. hjá Þór, Selfossi, Fjölni og HK, börn, unglinga og fullorðna. Karlalið Fjölnis vann sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn undir stjórn Arnars vorið 2017.

Hann þjálfaði félagslið í Bergen, hjá þýska liðinu HSG Krefeld 2019 - 2020 og Neistan í Færeyjum 2020 til 2022. Bæði árin lék Neistin til úrslita í bikarkeppninni í karlaflokki. Á síðasta sumri þjálfaði Arnar U17 ára landslið Íslands í karlaflokki sem tók þátt í Ólympíudögum Evrópuæskunnar í Slóvakíu.

Í ársbyrjun 2020 útskrifaðist Arnar með Master Coach gráðu sem er æðsta gráða í alþjóðlegum handbolta á vegum Handknattleikssambands Evrópu.