Fara í efni
Fréttir

„Almannahagsmunir“ ráða för í „lykilmáli“

Lögð hefur verið fram tillaga til þingsályktunar á Alþingi um Húnavallaleið; styttingu leiðarinnar milli Reykjavíkur og Akureyrar, sem Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, fjallaði um í grein á Akureyri.net í lok júlí.

Njáll Trausti er flutningsmaður tillögunar ásamt flokksbróður sínum úr Suðurkjördæmi, Ásmundi Friðrikssyni, og Jakob Frímanni Magnússyni, þingmanni Flokks fólksins úr Norðausturkjördæmi. Í raun vekur nokkra athygli að flutningsmenn séu ekki fleiri. Njáll Trausti segir aðspurður að öllum þingmönnum hafi verið boðið að gerast meðflutningsmenn en aðeins tveir viljað vera með.  „Það er greinilegt að málið er viðkvæmt af ýmsum ástæðum og ég held að hreppapólitík hafi mikil áhrif,“ segir hann við Akureyri.net.

„Í mínum huga er þetta lykilmál og almannahagsmunir sem ráða för hjá mér. Ályktunin er mjög í anda þeirrar samgönguáætlunar sem liggur fyrir og við erum að ræða í þinginu, þar sem litið er til umferðaröryggis og þess að fækka slysum.  Allir vita auðvitað að hér er um afar þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd að ræða.“

Verði bætt við samgönguáætlun

Ályktunin er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að fá Vegagerðinni það hlutverk að uppfæra forsendur fyrir uppbyggingu Húnavallaleiðar og hefja samtal við Húnabyggð um hvort Húnavallaleið verði bætt við sem nýframkvæmd í samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038. Jafnframt skuli metið hvort heppilegt sé að Húnavallaleið verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila í samræmi við lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020.

Í greinargerð með ályktuninni segir meðal annars: 

„Markmið með lagningu nýs vegar væri, ásamt vegabótum, að stytta núverandi leið milli Reykjavíkur og Akureyrar. Umferðaröryggi myndi batna verulega vegna betri hæðar- og planlegu auk þess sem tengingum myndi fækka til muna. Núverandi vegur er 30,4 km langur og liggur frá Brekkukoti í Þingi, norður í gegnum Blönduós og að stað skammt austan við heimreið að bænum Skriðulandi í Langadal. Kaflinn frá Brekkukoti í Þingi og um Blönduós er ágætur. Aftur á móti er kaflinn frá Blönduósi og um norðanverðan Langadal mjór og hlykkjóttur, uppfyllir ekki kröfur um sjónlengdir samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og er einn hættulegasti vegarkafli milli Akureyrar og Reykjavíkur. Fjöldi vegtenginga og vegamóta (a.m.k. 26 talsins, auk tenginga inn á tún) liggur að veginum og er slysatíðni há.“

Grein Njáls Trausta 30. júlí: „Vinkilkrókur“ við Blönduós – stytting hringvegar

Frétt um ályktun SSNV 3. september: SSNV harmar umræðu um styttingu þjóðvegar 1