Fara í efni
Fréttir

SSNV harmar umræðu um styttingu þjóðvegar 1

Mynd af vefnum Húnahornið - huni.is

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra harmar þá umræðu sem upp er komin um styttingu þjóðvegar 1 um svokallaða Húnavallaleið. Ályktun þess efnis var samþykkt á fundi stjórnarinnar nýverið.

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, telur það forgangsmál að koma Húnavallaleið – styttingu þjóðvegar 1 við Blönduós – í nýja samgönguáætlun. Grein hans um málið birtist á Akureyri.net í lok júlí og stjórn SSNV samþykkti umrædda ályktun nokkrum vikum síðar.

Ályktun stjórnarinnar er svohljóðandi:

„Stjórn SSNV harmar þá umræðu sem upp er komin um styttingu þjóðvegar eitt, svokallaða Húnavallaleið. SSNV hefur áður ályktað og bent á að í byggðarlegu samhengi sé mikilvægt að þjóðvegur eitt fari í gegnum þá þéttbýlisstaði sem hann fer um í dag. Við teljum því ekki að þessi 14 km stytting þjóni hvorki Norðlendingum né öðrum landsmönnum. Jafnframt má benda á að bæði þjóðvegur 1 og vegakerfið í heild þarfnast mikilla endurbóta svo það teljist ásættanlegt og uppfylli kröfur um öryggi íbúa og annarra vegfarenda.“

Smellið hér til að sjá grein Njáls Trausta