Fara í efni
Fréttir

„Alltaf gaman að ræða um kirkjuna okkar“

Akureyrarkirkja er ein helsta táknmynd bæjarins. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.
Akureyrarkirkja er ein helsta táknmynd bæjarins. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Séra Svavar Alfreð Jónsson lagði til í grein hér á Akureyri.net fyrir helgi að nafni Akureyrarkirkju yrði breytt og hún nefnd Matthíasarkirkja, eftir séra Matthíasi Jochumssyni - eins og höfundar kirkjunnar vildu í upphafi. Í daglegu tali hefur kirkjan oft verið kennd við Matthías, hugmyndin er ekki ný af nálinni og vitnar Svavar til dæmis í grein Jónasar Jónssonar frá Hriflu.

Ólafi Rúnari Ólafssyni, formanni sóknarnefndar Akureyrarkirkju, finnst hugmyndin athyglisverð „Þetta hefur ekki verið rætt formlega á vettvangi sóknarnefndar. Það er alltaf gaman að ræða um kirkjuna okkar og hvað hún stendur fyrir - og ekki síður hvað fólk vill að kirkjan standi fyrir. Þetta verður örugglega rætt og áreiðanlegt er að margir Akureyringar hafa á þessu skoðanir og hafa til þess rétt,“ segir Ólafur Rúnar við Akureyri.net.

„Umræðan kemur reglulega upp í ýmsu formi og hefur gert árum saman. Umræða af sama meiði er hvort kirkjan eigi að verða formleg táknmynd Akureyrarbæjar, enda hún þekkt kennileiti og iðulega notuð í auglýsingum íslenskra fyrirtækja, vísast oftar en nokkuð annað í bæjarmynd okkar, hvaða skoðun sem hafa má á því. Þannig hefur Akureyrarkirkja skapað sterka táknmynd fyrir bæjarfélagið sem er óumdeilanlega verðmæt fyrir það í víðustu mynd. Þetta er því skemmtileg umræða og síður en svo einkamál sóknarnefndar að hafa á því skoðun.“

Ólafur var spurður hvernig nafnbreyting geti átt sér stað: hafa bæjaryfirvöld til dæmis eitthvað um málið að segja?

Auðvitað mega stjórnendur bæjarins hafa á því skoðun eins og aðrir og hljóta raunar að eiga að hafa hana því Akureyrarkirkju tengjast sterk minni í bæjarmyndinni sem eru kirkjutröppurnar og gönguleiðin þaðan upp Eyrarlandveginn upp að MA og Lystigarðinum. Um leið er minning séra Matthíasar mikilvæg og vert að gefa henni þann gaum sem hún á skilið. En því má halda til haga að mörg eru skírnarbörnin hans séra Svavars hér í bæ sem eru jafnvel farin eða við það að bera sín börn til skírnar til hans og þekkja vart Akureyrarkirkju öðruvísi en hann hafi verið þar. Líkt og nú er vísað til séra Matthíasar, kynnu þeir að vera til í dag sem framsýn vildu eiga það til góða að kenna kirkjuna við dygga þjóna hennar síðar, alltaf komi maður í manns stað. Það er nægt svigrúm í Akureyrarkirkju fyrir ólíkar skoðanir á málum, þessu eins og öðrum og allir velkomnir að lýsa þeim. Orð eru til alls fyrst og jólahátíðin framundan góður tími fyrir fólk að ræða um kirkjuna okkar.“