Fara í efni
Fréttir

Alfreð hótað: „Mjög óþægileg tilfinning“

Alfreð hótað: „Mjög óþægileg tilfinning“

„Ég er ekkert sérstaklega stressaður yfir þessu en það var samt mjög óþægileg tilfinning að fá þetta bréf,“ sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta, í samtali við Akureyri.net í dag. Honum barst hótunarbréf í pósti á dögunum eins og fram kom í fréttum og lögreglan hóf strax rannsókn málsins.

Alfreð veit ekki til þess að neitt hafi komið út úr rannsókninni. „Þjóðverjar taka þessu mjög alvarlega. Meira má ég ekki segja,“ sagði hann.

Í bréfinu var því hótað að ef hann hætti ekki störfum sem landsliðsþjálfari kæmu einhverjir heim til hans og „sjáum þá til hvað verður,“ eins og það var orðað. Bréfið hófst á þessum orðum: „Við erum öll þýsk og viljum líka að landsliðsþjálfarinn sé Þjóðverji.“ Því var lítið á hótunina sem rasíska – sem kynþáttfordóma, og slíkt er litið sérlega alvarlegum í Þýskalandi og víðar.

„Við búum í litlu þorpi og allir fylgjast vel með öllum, þannig lagað, en þetta er samt óþægilegt. Mér finnst verst að ég fæ líklega aldrei að sjá þann sem skrifaði þetta undir fjögur augu. Svona er þetta eftir að samfélagsmiðlar komu til sögunnar; alls konar lið skrifar hitt og þetta undir dulnefni og þarf aldrei að standa fyrir málinu sínu. En það væri óskandi að sá sem sendi mér bréfið fyndist.“

Alfreð segist ekki mikið nota samfélagsmiðla, nema hvað hann „álpaðist inn á Instagram eftir að dóttir mín fór fram á það. Þar er stundum eitthvert lið að skrifa alls konar rugl til mín!“

Honum hafa borist stuðningsyfirlýsingar víða að, eins og áður hefur komið, bæði frá fjölda fólks í handboltaheiminum og þjálfurum fótboltalandsliða karla og kvenna í Þýskalandi. Honum þyki vænt um stuðninginn.

Akureyringurinn býr ásamt eiginkonu sinni, Köru Guðrúnu Melstað, í litlu þorpi í skóglendi skammt frá Magdeburg, þar sem hann þjálfaði á sínum tíma. „Maður verður ekki verulega ánægður þegar einhver hótar að manni svona – og ég er ekki sáttur við að þurfa að skilja konuna eftir heima þegar ég þarf að ferðast vegna vinnunnar,“ sagði Alfreð.

Hann segir að í gegnum árin hafi lögreglubíll sést á að giska tvisvar á ári í grennd við heimili þeirra hjóna en eftir að bréfið barst hafi mikil breyting orðið á. „Nú keyra þeir hægt og rólega framhjá okkur nokkrum sinnum á dag! Það er einn af kostunum við Þýskaland að þeir taka svona mál mjög alvarlega.“

Lögreglan sér um að rannsaka málið, Alfreð og Kara reyna að halda ró sinni. „Nú er bara að henda upp fleiri myndavélum við húsið og ljóskösturum með hreyfiskynjurum. Það er í sjálfu sér það eina sem ég get gert – og verð að gera,“ sagði Alfreð.

Smelltu hér til að lesa fréttina um hótunarbréfið.