Fara í efni
Fréttir

Akureyri er gáttin, Norðurland leikvöllurinn

Norðurljós við Goðafoss. Að mati framkvæmdastjóra Kontiki og Voigt hefur Norðurland allt til þess að bera, að vera eftirsóttur áfangastaður fyrir vetrarferðamennsku. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Í síðustu viku var bærinn undirlagður af ferðaþjónustuaðlium allsstaðar að, vegna tengslaráðstefnunnar Vestnorden. Á mánudeginum 29. september var boðað til vinnufundar og samtals að frumkvæði hollensku ferðaskrifstofnnar Voigt Travel og svissnesku ferðaskrifstofunnar Kontiki, sem hafa verið brautryðjendur í leiguflugi til Akureyrar, og hafa verið að bjóða upp á beint flug síðan 2019. Fundurinn var vel sóttur og það er ljóst að þessar ferðaskrifstofur eru komnar til þess að vera, sem eru mjög jákvæðar fréttir fyrir framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Við erum hérna til þess að byggja Akureyri og Norðurland upp sem áfangastað, ásamt ykkur

„Okkar upplifun er að þið getið algjörlega keppt við aðra áfangastaði í Skandinavíu,“ sagði Marloes Meijer, framkvæmdastjóri Voigt travel, en hún ávarpaði fundinn þegar Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri hafði sett fundinn og Hjalti Páll Þórarinsson hjá Markaðsstofu Norðurlands sagt nokkur orð. „Við viljum vera hluti af framtíð ferðaþjónustu á Norðurlandi, en við getum ekki gert það án ykkar. Við höfum ástríðu fyrir því að kynna gesti okkar fyrir einstökum stöðum, og við erum ákveðin í að ferðast til Norðurlands til lengri tíma.“

 

Fundurinn var haldinn í Hömrum í Hofi. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands ávarpar hér gesti. Mynd: MN

Marloes Meijer hjá Voigt travel og Bruno Bisig hjá Kontiki spjalla við gesti. Mynd: MN

Áhætta að hefja leiguflug til Akureyrar

„Þegar við komum hingað fyrst árið 2019, höfðum við í huga hvort að svæðið væri þess virði, að fljúga hingað vikulega að vetri til,“ segir Marloes. „Við erum áhættusækin, ég viðurkenni það, en augljóslega komumst við að þeirri niðurstöðu að við höfum trú á svæðinu, allt árið um kring.“

„Við sjáum áfangastaði í stærra samhengi, og leggjum áherslu á heildarupplifun. Við þurfum ekki að hafa mikið fyrir því að selja Ísland að sumri til,“ segir Marloes. „Veturinn er meiri áskorun, og auk þess er samkeppni frá öðrum Norðurlöndunum um vetrarferðamennina. Það sem skiptir mestu máli er að vekja athygli á svæðinu, ekki bara í okkar markaðssetningu, heldur frá ykkur líka.“

Kontiki er að byggja upp stöðugan áfangastað

Kontiki Reisen er leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri ferðamennsku, en Bruno Bisig er forstjóri þar á bæ. Hann kynnti sig og ferðir Kontiki til Akureyrar, en hann segir mikla áherslu lagða á að virðing sé borin fyrir svæðunum sem eru heimsótt, menningu og náttúrunni. „Við fjárfestum ekki í verkefnum til skamms tíma. Við erum hérna til þess að byggja Akureyri og Norðurland upp sem áfangastað, ásamt ykkur,“ sagði Bruno við gesti fundarins.

„Við skiljum vel, að innviðir séu ekki alveg þeir sömu á veturna,“ sagði Marloes í sínu erindi, en það eru ýmsar áskoranir á borðinu varðandi móttöku ferðamanna að vetri til, eins og að tryggja snjómokstur að ferðamannastöðum og opnunartíma þjónustuinnviða, svo dæmi sé tekið. „Við þurfum hjálp frá ykkur, hvað það varðar, til þess að vinna að því markmiði að jafna út árstíðabundna ferðaþjónustu,“ bætti Marloes við.

 

„Þið hafið tækifæri til þess að halda stöðu ykkar sem einstakur áfangastaður,“ sagði Bruno meðal annars. Lagt er upp úr því að markaðssetja Norðurland sem heild. T.v. Heimsskautsgerðið við Raufarhöfn. T.h. Hlíðarfjall. Myndir: Markaðsstofa Norðurlands. 

Margt hægt að læra af Finnum

Í Hollandi eru víða stór auglýsingaskilti við vegi, á vegum Voigt travel, þar sem norðurljós dansa fyrir ofan Goðafoss, eða sambærilegum ferðamannastöðum á Norðurlandi, en Marloes sýndi gestum vinnustofunnar ljósmyndir af því. Bæði Marloes og Bruno lögðu áherslu á að það er ákveðin áhætta frá þeirra bæjardyrum séð að halda reglulegum ferðum til Norðurlandsins, og hvöttu ferðaþjónustuaðila og samfélagið hérna til þess að vera með þeim í liði.

Þau hvöttu til samráðs og samvinnu í heimabyggð líka, og taka dæmi um áfangastaðinn Salla í Finnlandi, sem er lítið og afskekkt samfélag. Sterkur hópur heimafólks hittist þar í hverjum mánuði, og samstillir markmið sín. Lika ferðaþjónustuaðilar sem eru í heilbrigðri samkeppni innbyrðis. Markaðsstofa Norðurlands þjónar í raun þessum tilgangi hjá okkur, þar sem ferðaþjónustan getur unnið saman, og Marloes og Bruno voru í raun að hvetja til enn frekari samvinnu.

Allar línur liggja upp á við

Bruno hjá Kontiki sýndi fundargestum línurit þar sem það var frekar augljóst að það hefur verið þónokkur áhætta fyrir fjárfesta að samþykkja beint flug til Akureyrar þegar það kom fyrst upp á borðið. Allar línur liggja þó upp á við, og eins og hann sagði í kynningu sinni er verkefnið komið til að vera. Einnig sagði Bruno að hingað til hafi áherslan verið á vetrarferðamennsku hjá þeim, en á dagskrá sé að efla sumarferðir líka.

'Less is more', er eitthvað sem heillar gestina okkar

„Við færðum ferðirnar okkar frá norður-Noregi til ykkar, vegna þess að hér höfum við upplifað betri þjónustu frá ferðaþjónustuaðilum, sem eru sveigjanlegir og leggja sig fram við að veita þá þjónustu sem gestir okkar kaupa,“ sagði Bruno. „Ef eitthvað hefur komið upp á, tafir eða eitthvað slíkt, þá höfum við mætt sveigjanleika sem er kærkominn. Þið hafið verið tilbúin til þess að fresta þjónustunni eða færa til, til þess að mæta okkar þörfum. Það er dýrmætt fyrir okkur, og okkar loforði til viðskiptavina Kontiki.“

 

Samkoman hét ekki 'Vinnufundur' fyrir ekki neitt. Gestir komu saman á hringborðum eftir erindin og ræddu málin. Mynd: MN

Mikilvægt að vera áfram heimilislegur og einstakur áfangastaður

Aðvörunarorð frá Bruno voru þó á þá leið, að það væri mikilvægt að passa upp á hægan vöxt. Að halda í það að vera lítill og fallegur áfangastaður, í stað þess að vinna of hart að því að verða fjölsóttur ferðamannastaður. „Þið hafið tækifæri til þess að halda stöðu ykkar sem einstakur og heimilislegur áfangastaður,“ segir Bruno. „Þá getum við haldið okkur við viðskiptavini sem eru tibúnir til þess að borga meira, fyrir einstaka staði, í stað þess að fara á markaðinn þar sem fólk borgar minna, en fleiri koma með.“

Ég er að fara að skutla einum karli upp að Dettifossi í vetur, í 6. skiptið. Og hann mun koma aftur næsta vetur, og þarnæsta

Anton Birgir, Geo-Travel Mývatni

Marloes tók undir þessi orð, og sagði að Voigt Travel leggi líka áherslu á ferðamennsku til minni staða, þar sem fólk er tilbúið að borga meira og eyða lengri tíma á áfangastaðnum. „'Less is more', er eitthvað sem heillar gestina okkar,“ segir Marloes. „Lítil samfélög með mikinn karakter, þar sem menningin og sagan skiptir miklu máli. Gestirnir okkar hafa á orði, að á svona stöðum líður þeim eins og þau séu heima - gestrisnin er slík. Persónuleg og hlý. Svona verða gestirnir í raun boðberar staðarins, og deila sinni upplifun áfram á miðlum og í sínum hópum.“

„Við sjáum mikla aukningu í hópi 55 ára og eldri, sem vilja ferðast á svona staði, og þessi hópur er að skilja mun meira eftir sig í heimabyggð heldur en áður,“ segir Marloes. „Við sjáum mikil tækifæri fyrir staði á borð við Norðurland, að mæta þessum ört vaxandi hópi.“

Markaðsstofan er mikilvæg miðja

Hjalti Páll Þórarinsson hjá Markaðsstofu Norðurlands notaði tækifærið og minntist á að vannýtt tækifæri í tengslum við vetrarferðamennsku á Norðurlandi séu fjölmörg, og möguleiki til vaxtar sem áfangastaður að vetri til sé gríðarlegur. Markaðsstofan hefur verið í mikilli vinnu með ferðaþjónustuaðilum við að efla þjónustu við ört stækkandi hóp fólk sem vill upplifa veturinn, og þar sé beina flugið til Akureyrar mikilvæg breyta.

Einnig var lögð áhersla á, hversu mikilvægt sé að selja Norðurland sem áfangastað í heild sinni, en þar kemur samvinnan sem Marloes og Bruno lögðu svo hart að gestum fundarins, sterk inn. „Akureyri er gáttin, og allt Norðurland er leikvöllurinn,“ sagði Hjalti. „Við höfum allt til þess að bera, til þess að vera jafn eftirsóknarverður áfangastaður fyrir vetrarferðamennsku og aðrir staðir í Skandinavíu.“

 

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar, var einn af þeim sem ávarpaði fundinn fyrir hönd ferðaþjónustuaðila í heimabyggð. Mynd: MN

Heimafólkið fékk orðið líka

Valdir aðilar úr ferðaþjónustu á svæðinu héldu einnig erindi á fundinum. Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar, Aníta Elefsen hjá Síldarminjasafninu á Siglufirði og Anton Freyr Birgisson hjá Geo Travel á Mývatni & Saga Travel.

Steingrímur talaði um að Keflavíkurflugvöllur væri troðinn, en þau hefðu fundið fyrir því að gestir væru óánægðir með fjölda ferðamanna á ferðamannastöðum. „Fólk kemur hingað, af því að þau búast við að hér sé ekki fólksfjöldi. Samkvæmt nýlegri könnun kom í ljós að 62% af gestum til landsins telja að þau myndu vilja heimsækja Ísland aftur - og vilja þá koma til Norðurlandsins. Svo væri morgunljóst, að þau sem fljúga beint hingað eyða meiri tíma á svæðinu.“ 

Anita hjá Síldarminjasafninu sagði að það væri stutt síðan að vetrarferðamenn voru nánast engir hjá þeim. „Fyrir fimmtán árum vorum við ánægð með 15.000 manns yfir allt árið og flestir gestir voru Íslendingar. Í dag erum við að sjá allt annað, en 35.000 manns heimsækja okkur árlega, og 75% eru erlendir gestir. Það er 400% aukning af erlendum gestum frá 2004, á tímabilinu frá október-apríl.“ 

 

Geo-Travel í Mývatnssveit eru eitt af þeim fyrirtækjum sem bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu á veturna. Anton Birgir, eigandi Geo-Travel, hélt erindi á fundinum og benti á möguleikana sem við höfum hérna fyrir norðan, á að verða eftirsótt vetrarparadís. Myndir: Geo-Travel. Lofthellir og snjóþrúguganga.

Það þarf að vera opið fyrir þetta fólk

„Það er ekki nóg að þetta ágæta fólk (Marloes og Bruno) komi með flugvélarnar og fólkið,“ sagði Aníta og ítrekaði þörf fyrir samvinnu þjónustuaðila á litlum stöðum. „Við þurfum að geta tekið á móti fólki. Við þurfum að opna dyrnar, og taka á móti gestunum. Það er ekki nóg að ég opni safnið. Það þarf líka stað fyrir gestina að sofa, og veitingastað fyrir þau að borða á.“ 

Þau heimsækja allt og alla, og kynnast okkur öllum

Anton hjá Geo-Travel er þekktur fyrir að vera stórhuga, og það stóð ekki á því. „Við verðum besti áfangastaðurinn fyrir vetraferðamennsku í framtíðinni. Við erum Tenerife fyrir þessu fólki,“ sagði Anton. „Þetta er fólk sem kemur til þess að upplifa veturinn á Íslandi, þau eru hérna í sjö daga og við leikum okkur með þessu fólki allan tímann - og þegar við skutlum þeim á flugvöllinn í lok ferðar, þekkjum við alla með nafni og oftar en ekki koma þau aftur fyrr eða síðar. Ég er að fara að skutla einum karli upp að Dettifossi í vetur, í 6. skiptið. Og hann mun koma aftur næsta vetur, og þarnæsta.“ 

„Þetta fólk, sem Kontiki og Voigt eru að fljúga með til okkar, er hérna í 7 daga. Þau fara í Jarðböðin. Þau fara í Skógarböðin og þau fara líka í Sjóböðin. Þau heimsækja allt og alla, og kynnast okkur öllum,“ sagði Anton að lokum.

Endað á samtali og vinnufundi

Fundurinn breyttist svo í samráðsvettvang, þar sem gestirnir dreifðu sér á borðin og fengu það verkefni að koma með hugmyndir og draga upp mynd af styrkleikum og áskorunum ferðaþjónustunnar á Norðurlandi.

Niðurstöðurnar verða svo nýttar áfram í áframhaldandi samtali og uppbyggingu Norðurlands sem einstakur áfangastaður á heimsvísu.