Fara í efni
Fréttir

Akureyrarmótið í golfi hefst í dag

Ríkjandi Akureyrarmeistarar í golfi, Andrea Ýr Ásmundsdóttir og Valur Snær Guðmundsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarmótið í golfi hefst í dag á Jaðarsvelli og stendur fram á laugardag. Í ár eru 148 kylfingar skráðir til leiks, í ýmsum forgjafar- og aldursflokkum, og fyrstu keppendur hófu leik kl. 8 í morgun í blíðskaparveðri.

Í meistaraflokki kvenna eru þrír keppendur og þær leggja af stað í fyrsta hringinn kl. 14:20. Akureyrarmeistari síðustu þriggja ára, Andrea Ýr Ásmundsdóttir, er fjarri góðu gamni vegna þátttöku með kvennalandsliðinu á Evrópumótinu og því ljóst að nýtt nafn verður skráð á Akureyrarbikarinn í ár.

Valur Snær Guðmundsson, sem bar sigur úr býtum í meistaraflokki karla í fyrra, freistar þess hins vegar að verja titil sinn. Alls eru sautján kylfingar í flokknum í ár og fara þeir fyrstu út kl. 11:50 í dag.

Hægt er að fylgjast með skori allra keppenda í mótinu jafnóðum eftir því sem keppni vindur fram á þessari síðu með því að velja flokka úr fellista.

Mótið stendur yfir í fjóra daga og Akureyrarmeistarar allra flokka verða krýndir í lokahófi á Jaðri á laugardagskvöld.