Ævintýraferð til Kína reyndist afdrifarík

Árið 2004 var úrval meindýravara á Íslandi nánast ekkert og aðeins ein tegund af skordýraeitri í boði. Halldór Andri Árnason átti stóran þátt í að breyta því, en heildverslun hans, Streymi heildverslun á Akureyri, er í dag stærst á sviði framleiðslu og innflutnings á vörum til meindýravarna á Íslandi.
„Þegar ég var að byrja í meindýrabransanum var nánast ekkert til af meindýravörum hérlendis. Það var t.d. bara hægt að kaupa eina tegund af skordýraeitri og mjög fá úrræði í boði fyrir meindýraeyða. Menn þurftu bara að redda sér og vera útsjónasamir,“ segir Halldór Andri Árnason, framkvæmdastjóri og eigandi Streymis heildverslunar, sem er langstærsta heildsala landsins á sviði meindýravarna og þjónar nær öllum meindýraeyðum og endursöluaðilum á Íslandi.
Halldór með kínverska vini sínum Felix sem bauð honum í brúðkaup til Kína árið 2004 og þá var ekki aftur snúið. Halldór fór árlega til Kína eftir það og flutti svo út árið 2008.
Hrærði eitri saman á Stórhöfða
Halldór, sem er fæddur og uppalinn í Ólafsfirði, hóf ungur störf sem meindýraeyðir. Síðar, eftir að hafa flosnað upp úr námi í VMA, starfaði hann við meindýravarnir hjá Reykjavíkurborg, en á þeim tíma framleiddi Reykjavíkurborg sitt eigið nagdýraeitur á Stórhöfða. „Það er svolítið gaman að hafa tekið þátt í þessari framleiðslu. Við vorum að hræra þessu eitri saman og steypa í vaxbeitur. Þetta var allt handgert, sett í glös og látið harðna,” rifjar Halldór Andri upp.
Lítið vöruúrval fyrir meindýraeyða varð kveikjan að því að Halldór stofnaði Streymi heildverslun þá tvítugur að aldri. Til að byrja með var aðeins um aukavinnu að ræða en fljótlega varð starfsemin að fullu starfi. Hann leitaði strax erlendra tengsla og fékk meðal annars umboð fyrir þýska efnarisann Bayer eftir minnisstæðan fund á sölusýningu í Englandi. „Fulltrúi fyrirtækisins horfði bara á mig og sagði: Hvað ertu þú eiginlega gamall? Ég svaraði að ég væri tvítugur sem ég var. „Já, ókei, þú ert mjög ungur en ég ætla ekki að dæma þig út frá aldrinum heldur því sem þú hefur gert,“ sagði hann þá. Ég fékk umboðið og var með það í nokkur ár,” rifjar Halldór upp.
Áður fyrr var þetta mikið feimnismál. Ef það þurfti að hringja á meindýraeyði þá vildi fólk ekki að aðrir vissu af því og vildi ekki fá merktan bíl fyrir utan heimili sitt eða fyrirtæki. Í dag er þessu öfugt farið.
Boð í brúðkaup í Kína
Ákveðinn vendipunktur varð í starfsemi fyrirtækisins árið 2008 í kjölfar þess að Halldór fór í brúðkaup í Kína hjá kínverska vini sínum Felix. Þeir höfðu kynnst í gegnum blekviðskipti nokkrum árum áður, fundið tóninn og haldið sambandinu. „Og þegar hann bauð mér í brúðkaupið sitt þá ákvað ég að skella mér því mig hafði alltaf langað að heimsækja hann til Kína,” segir Halldór. Ferðin til Kína var fyrsta utanlandsferðin sem Halldór fór einn í. Þá höfðu þeir félagarnir aðeins átt samskipti í gegnum tölvupóst og síma, og fannst því sumum Halldór nokkuð kaldur að leggja í þessa löngu ferð í brúðkaup hjá manni sem hann hafði aldrei hitt. „Ferðalagið var ekki áfallalaust en þegar ég loks hitti Felix þá rauk ég beint í faðm hans, svo feginn var ég að vera kominn á leiðarenda,“ segir Halldór kíminn.
Starfsfólk Actanor Limited á góðri stund, klætt treyju íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Actanor Limited er systurfyritæki Streymis í Hong Kong.
Rak fyrirtækið á Akureyri frá Asíu
Ferðin styrkti ekki bara vinabönd þeirra Felix heldur kynntist Halldór einnig fleira áhugaverðu fólki í ferðinni. Eftir sína fyrstu ferð til Kína árið 2004 fór hann þangað árlega næstu ár á eftir og flutti síðan til Shenzhen, rétt sunnan við Hong Kong, árið 2008. „Mig langaði að prófa að búa annars staðar en á Íslandi og Kína var spennandi í mínum huga. Ég tók bara vinnuna með mér og hélt áfram að reka Streymi í gegnum tölvu og síma en var með starfsmann hér á Akureyri sem sá um að afgreiða pantanirnar. Ég sat oft fram eftir nóttu og talaði við kúnnana í síma eins og ég væri bara á Akureyri. En ég hætti fljótlega að segja þeim hvar ég væri staddur því margir sögðu: „Ég vil ekki trufla fyrst þú ert í Kína, ég hringi seinna.“ Þá var auðveldara að láta eins og maður væri bara á Akureyri,“ segir Halldór kíminn og bætir við að hann hafi líka alltaf sagt að það væri ekkert nema blíða fyrir norðan þegar einhver viðskiptavinur hringdi og spurði út í veðrið.
Frá árunum í Kína. Halldór heillaðist strax af landi og þjóð eftir sína fyrstu ferð þangað árið 2004.
Krefjandi en gefandi ár í Kína
Fljótlega fór Halldór að byggja upp tengslanet við framleiðendur í Asíu og stofnaði í kjölfarið systurfyrirtæki Streymis í Hong Kong, Actanor Limited. „Í Kína er svo mikið af verksmiðjum sem spyrja bara hvað viltu borga? Gæði framleiðslunnar eru síðan út frá því. Þess vegna þarf maður að fara mjög varlega og finna trausta samstarfsaðila. Að lokum fann ég verksmiðjur sem hafa framleitt fyrir okkur árum saman. Við eigum jafnvel plastmótin sjálf og fáum vörurnar framleiddar undir okkar vörumerkjum. Þetta var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur því við vildum stjórna bæði gæðum og verði,“ segir Halldór. Að auki framleiðir systurfyrirtækið einnig vörur í Víetnam, t.d. flugnabana, sem eru eftir þeirra eigin hönnun. Þá er fyrirtækið í samstarfi við fleiri aðila í Evrópu, m.a. við verksmiðju í Ungverjalandi sem framleiðir efnavörur og nagdýraeitur undir þeirra vörumerki Ykkar Pest Control.
Halldór fór að flytja inn vörur til meindýravarna árið 2004 þar sem úrvalið var fátæklegt af slíkum vörum á Íslandi. Fyrirtæki hans framleiðir nú sínar eigin vörur, m.a. undir nafninu Ykkar pest control, og eru þær til sölu um allt land.
Árin í Kína voru að sögn Halldórs bæði krefjandi og gefandi. „Það sem kom mér mest á óvart var hversu hratt allt þróaðist þar varðandi tæknimál. Fólk borgaði til dæmis með símanum mörgum árum áður en það komst í almenna notkun hér á landi,“ segir Halldór. Veðrið og mannlífið voru einnig stór hluti af upplifuninni úti og þess saknar Halldór. „Maður saknaði veðursins heima þegar maður var úti og svo saknar maður veðursins úti þegar maður er heima á Íslandi,“ segir hann og hlær. „En það var dásamlegt að geta farið út að borða á hverju kvöldi og alltaf verið í mannlífi. Það er eitthvað sem ég sakna að utan. Árin úti opnuðu augu mín fyrir því hvernig heimurinn virkar. Ég lærði mikið, bæði um viðskipti og um lífið sjálft. Það þroskaði mig og styrkti fyrirtækið gríðarlega.“
Halldór og Chelsea. Þau fluttu til Íslands árið 2018.
Vinátta sem varð að ást
Á árunum í Asíu kynnist Halldór Chelsea Árnason Cao, núverandi eiginkonu sinni. „Við hittumst fyrst í almenningsgarði stuttu eftir að ég kom út og fórum að spjalla. Við þurftum að nota þýðingarforrit því á þessum tíma kunni ég enga kínversku. Hún var forvitin um mig enda ekki mikið um útlendinga á þessum tíma í Shenzhen. Í fyrstu vorum við bara vinir en mörgum árum seinna, eftir skilnað við fyrri eiginkonu mína, þróaðist sambandið okkar í ást,“ segir Halldór. Þau eignuðust dóttur árið 2016, Elínu Halldórsdóttur Cao, en fyrir átti Chelsea soninn Ruofeng Halldórsson Xi, sem er fæddur 2012. Þegar sonurinn komst á grunnskólaaldur flutti fjölskyldan til Íslands árið 2018. „Það reyndist hárrétt ákvörðun, því covid skall á tveimur árum síðar,“ segir Halldór.
Þegar fjölskyldan flutti til Íslands hafði Chelsea aldrei komið þangað áður og kunni lítið í ensku, en í dag talar hún bæði ensku og íslensku. „Hún hefur verið hörkudugleg, alveg einstakur dugnaðarforkur,“ segir Halldór stoltur. „Hún vinnur núna með mér í fyrirtækinu og starfar líka í gróðurhúsunum hjá Akureyrarbæ á sumrin. Hún elskar náttúruna hér.“
Streymi framleiðir eigin vörur erlendis og flytur til Íslands.
Auknar gæðakröfur kalla á meiri forvarnir
Talið berst að því hversu mjög tímarnir hafa breyst frá því að Halldór var að búa til vaxbeitur hjá Reykjavíkurborg. Vöruúrvalið í lagerhúsnæði Streymis í Goðanesinu ber þess glöggt merki að aðstæðurnar eru allt aðrar í dag, bæði hvað varðar vörur til forvarna sem og vörur til útrýmingar á meindýrum. Gæðakröfur hafa líka aukist, ekki síst hjá matvælafyrirtækjum sem þurfa að uppfylla alþjóðlegar reglur. Það hefur líka ýtt undir sölu á vörum fyrirtækisins. Þá hefur viðhorf almennings til meindýravarna einnig gjörbreyst. „Áður fyrr var þetta mikið feimnismál. Ef það þurfti að hringja á meindýraeyði þá vildi fólk ekki að aðrir vissu af því og vildi ekki fá merktan bíl fyrir utan heimili sitt eða fyrirtæki. Í dag er þessu öfugt farið. Fyrirtæki vilja fá meindýraeyða í heimsókn á merktum bílum því það sýnir að fyrirtækið hefur forvarnir og gæðakerfi í lagi,“ segir Halldór.
Þegar hann er spurður út í það hvernig hann sjái fyrir fyrirtækið þróast í framtíðinni segist hann ekki vilja fara út í fleiri vöruflokka heldur halda sig við meindýravarnirnar og verða enn sérhæfðari. „Við getum ekkert stækkað mikið meira hérna á Íslandi, þannig að markmiðið er frekari stækkun á Norðurlöndunum,“ segir Halldór að lokum og bætir við að stærstu áskoranir framundan tengist veðurfarsbreytingum sem auka útbreiðslu skordýra.