Meira um veggjalús, kakkalakka og lúsmý

Veðurfarsbreytingar og aukin ferðalög til og frá landinu hafa gjörbreytt áskorunum meindýraeyða. Þetta segir Halldór Andri Árnason, framkvæmdastjóri Streymis heildverslunar á Akureyri, sem selur alls konar vörur til meindýravarna, meðal annars gildrur fyrir veggjalús sem gefið hafa góða raun.
„Við sjáum miklu fleiri tilfelli af veggjalús, kakkalökkum og lúsmýi en áður. Breyttar aðstæður og hlýnun spila þar inn í. Og þar sem skordýrategundirnar eru mun fleiri nú en áður á fólk oft í erfiðleikum með að sjá muninn milli tegunda og er þar af leiðandi að beita röngum aðferðum í baráttunni gegn þessum dýrum. Ávaxtaflugugildra virkar t.d. ekki á húsflugur, þar er einfaldur flugnaspaði eða límgildrur besta ráðið,“ segir Halldór sem veit um hvað hann er að tala, enda með meira en 20 ára reynslu í bransanum. Fyrirtæki hans, Streymi heildverslun, sérhæfir sig í vörum til meindýravarna og er leiðandi á sínu sviði hér á landi.
- Á MORGUN – ÆVINTÝRAFERÐ TIL KÍNA REYNDIST AFDRIFARÍK
Veggjalús er óvinsæll gestur í svefnherbergjum á einkaheimilum og á gististöðum. Það getur verið erfitt að losna við hana en það er þó hægt með því að blanda saman nokkrum aðferðum.
Tæki sem gefur frá sér koltvísýring
„Það hefur orðið meira en helmingsaukning í sölu á vörum tengdum veggjalús á milli ára, síðastliðin að minnsta kosti þrjú ár,“ segir Halldór en leggur á sama tíma áherslu á að ekki sé um faraldur að ræða heldur sé aukningin mikil því hún sé að koma úr svo gott sem engu. Segir hann veggjalúsina oft og tíðum vera erfiða viðureignar þar sem hún getur verið án matar í allt að ár eða lengur. Þá er hún sérstaklega erfið í húsum með panilklæðningu, t.d. í sumarhúsum, þar sem hún getur falið sig í glufum.
Baráttan er hins vegar ekki vonlaus við þessi skordýr sem enginn vill fá í svefnherbergið hjá sér, hvað þá þar sem gisting er seld. „Við erum annars vegar að selja veggjalúsagildru og hins vegar veggjalúsavaka. Gildran virkar vel ef einhver sefur í rýminu en ef svo er ekki þá er mikilvægt að vera með búnað sem gefur frá sér koltvísýring, eins og veggalúsavakinn gerir, því koltvísýringurinn hvetur dýrið til að fara á stjá,“ segir Halldór og útskýrir virkni tækisins betur:
„Veggjalúsavakinn notar sambland af hita og CO2 [koltvísýring] til að laða að veggjalýsnar sem festast á límspjaldi. Með þessum hætti er hægt að greina veggjalúsavandamál og meta árangur útrýmingaraðgerða. Veggjalúsagildran virkar þannig að hún gefur frá sér ferómón sem veggjalýs gefa frá sér þegar þær hafa fundið „veggjalúsabæli“ þar sem þær eru nokkrar saman í hóp. Ef smitið er á byrjunarstigi eða eftir eitrun og nokkrar lýs eru enn á lífi í rýminu, þá eru þær leitandi að þessu ferómóni og fara í gildruna. Ef það er aftur á móti mikið af veggjalús þá er engin ástæða til að nota gildruna því það er vitað að veggjalús sé til staðar, auk þess virkar hún ekki eins vel ef hún er að keppa við aðra veggjalúsahópa eða bæli,“ segir Halldór og bætir við að bæði veggjalúsgildrurnar og veggjalúsavakinn hafi gefið góða raun í baráttunni við veggjalús. Þá segir hann að ýmsar efnavörur séu einnig notaðar til að gera út af við dýrin og þá séu sérstakar gufuvélar gjarnan notaðar við rúmstæði en gufan drepur strax þær lýs sem eru á svæðinu. „Í rauninni er ekki eitt efni sem gerir út af við hana heldur nota menn mörg efni og aðferðir saman, það virkar best.“
Halldór Andri, sem er framkvæmdastjóri Streymis á Akureyri, mundar flugnaspaðann. Heildsalan selur allt sem tengist meindýravörnum en meiri fjölbreytileiki í skordýrum á Íslandi kallar á fjölbreyttari varnir.
Tímaspursmál hvenær moskító komi til landsins
Fleiri nýir landnemar hafa að sögn Halldórs verið að gera landsmönnum lífið leitt. Kakkalakkar og maurar eru nú þegar búnir að koma sér vel fyrir á vissum stöðum á landinu og líklega styttist í það að moskítóflugur verði hér líka landlægar. „Í raun er ótrúlegt að þær hafi ekki numið land nú þegar, fræðimenn vita í raun ekki af hverju þær eru ekki hér nú þegar því þær eru alls staðar í kringum okkur, í Norður-Noregi og einnig á Grænlandi.“
Hann nefnir sem dæmi að flugvélar sem fljúga á milli Akureyrar og Grænlands hafi örugglega borið með sér moskítóflugur, en þær virðist ekki lifa hér. „Sennilega er bara tímaspursmál að moskítóflugur komi hingað ef hlýnun heldur áfram.“
Nánar verður rætt við Halldór á morgun en þar segir hann frá sögunni á bak við Streymi heildverslun og hvernig viðhorf fólks til meindýravarna hefur breyst í gegnum árin.
- Á MORGUN – ÆVINTÝRAFERÐ TIL KÍNA REYNDIST AFDRIFARÍK