50 ár síðan Selestína vann klausturheit
Um þessar mundir eru þau tímamót hjá einni af Karmelsystrunum þremur á Akureyri að 50 ár eru liðin frá klausturheiti systur Selestínu. Hún á lengsta klausturheitið af nunnunum á Akureyri en heit systur Marcelinu er 35 ára gamalt og klausturheit systur Betriz er 27 ára.
Í tilefni af tímamótunum hjá systur Selestínu verða níu daga þakkalætisbænir í kaþólsku kirkjunni á Akureyri, Péturskirkju við Eyrarlandsveg dagana 28. nóvember til 6. desember klukkan 18, nema á sunnudeginum þá eru þær kl. 11. Þá verður einnig sérstök hátíðarmessa sunnudaginn 7. desember og samverustund á eftir í sal Heilsuverndar að Austurbyggð 17 (Hlíð). Þeim sem vilja gleðja Selestínu með gjöfum á þessum tímamótum er bent á reikning Karmelsystra: 0565-14-101372 / kt.410601-3380.

Níu daga þakklætisbænir verða í Péturskirkju í lok mánaðarins í tilefni 50 ára klausturheits systur Selestínu.
Súpa og bænir alla mánudaga
Akureyri.net sagði í vor frá því að systurnar væru að safna fyrir kostnaðarsömum framkvæmdum á húsi Karmelsystra að Álfabyggð 4. Að sögn systur Marcelina De Almeida Lara, sem býr í húsi Karmelsystra, ásamt hinum nunnum tveimur, gekk fyrsti hluti viðgerðarinnar vel og var klárað að skipta um alla glugga á efri hæð hússins í september.
Auk áðurnefnds klausturheitsafmælis er ýmislegt annað um að vera hjá systrunum í vetur. Þær bjóða t.d. alltaf fólki heim til sín í Álfabyggð 4, á mánudögum kl. 12 í bænastund og súpu á eftir. Þessi súpuhádegi lágu reyndar niðri í sumarfríinu og þegar framkvæmdir stóðu yfir á gluggum hússins en hafa nú hafist aftur. Bjóða nunnurnar alla velkomna sem vilja styrkja samband sitt við guð.